Hringrásarhagkerfi eru framtíðin

08.06.17 | Fréttir
WCEF2017
Photographer
Heidi Orava
Leiguréttur í stað eignarhalds, fatnaður í safnhauga, vöruhönnun sem auðveldar viðgerðir. Sjálfbær neysla og framleiðsla er áherslusvið í norrænu samstarfi um umhverfismál og bar reglulega á góma þegar þátttakendur frá yfir 100 löndum ræddu sjálfbærar hringrásarlausnir á ráðstefnunni World Circular Economy Forum í Helsinki.

Norræna ráðherranefndin, sem var stærsti meðskipuleggjandi ráðstefnunnar dagana 5.–7. júní, greindi frá bestu dæmunum um aðgerðir á vettvangi norræns samstarf sem miða að umskiptum frá línulegu hagkerfi til hringrásarhagkerfis. Starf ráðherranefndarinnar á sviði sjálfbærrar vefnaðarvöru og sjálfbærs tískuiðnaðar var í brennidepli bæði í norræna skálanum og á aðalþingi ráðstefnunnar, Circular Blueprints Gameshow - Pushing the Transition in the Nordics and Beyond, þar sem markmiðið var að kortleggja þá þætti sem þurfa að vera til staðar til að árangursrík umskipti geti átt sér stað.

Per Bolund, ráðherra fjármálamarkaða í Svíþjóð, segir að almenningur á Norðurlöndum viti í hverju vandinn felst, sé reiðubúinn til aðgerða og vænti lausna úr ranni stjórnmálanna.

„Fyrirtæki hafa tekið sig saman, vilja taka þátt og vinna að breytingum. Þetta stuðlar að vaxandi einhugi, sem veitir okkur umboð til aðgerða. Málið snýst um að skoða verðlagningu losunar og sjá til þess að það borgi sig að velja sjálfbært. Hér eru skattlagning og aðrir efnahagslegir hvatar mikilvæg tól,“ segir Bolund.

Samvinna knýr fram breytingar

Kimmo Tiilikainen, húsnæðis-, orkumála- og umhverfisráðherra Finnlands, lagði áherslu á að alþjóðlegt samstarf og þekkingarmiðlun greiddi fyrir hringrásarþróun.

„Aðeins með samvinnu náum við fram þeim breytingum á viðmiðum í hagkerfi okkar sem þarf til að umskipti til hringrásarhagkerfis geti orðið að veruleika. Við höfum ekki ráð á að láta hráefni fara til spillis, það verður að nýta og endurnýta eins og best verður á kosið – þannig leggjum við einnig grunn að velferð til framtíðar,“ sagði Tiilikainen.

Alice Kaudia, ráðuneytisstjóri í umhverfismálaráðuneyti Kenía, segir að Kenía og önnur Afríkuríki sem nú séu að móta stefnu sína í málefnum græns hagvaxtar græði mikið á samstarfi við Norðurlönd, bæði á sviðum grænnar tækni og rannsókna og menntunar.

„Þörf fyrir þekkingarmiðlun er einnig til staðar í viðskiptalífinu – norræn fyrirtæki ráða yfir betri tækni og nýskapandi hugsunarhætti sem við getum lært af,“ segir Kaudia.

Veftímaritið Green Growth the Nordic Way birtir ítarlegri umfjöllun um þingið Circular Blueprints Gameshow þann 9. júní, sjá Green Growth the Nordic Way. Hægt er að horfa á þingið í heild hér.