Konur sem verða fyrir hatursorðræðu á netinu njóta síður réttarverndar

21.06.17 | Fréttir
Moa Bladini
Photographer
Atle Morseth Edvinsson
Karlar njóta í raun betri réttarverndar en konur vegna hatursorðræðu á netinu. Moa Bladini, lektor í refsirétti, kemst að þessari niðurstöðu í kortlagningu sem hún gerði á löggjöf á Norðurlöndum um hatursorðræðu á netinu. Hún telur mikilvægt að taka kyn með í löggjöfina um hatursglæpi ef takast á að veita konum betri vernd.

„Norðurlöndin vilja að jafnrétti ríki á svæðinu, en þá skýtur skökku við að konur skuli njóta síðri réttarverndar en karlar vegna hatursorðræðu og hótana á netinu,“ segir Moa Bladini, lektor í refsirétti við Gautaborgarháskóla.

Hvergi á Norðurlöndum er „kynferði“ tilgreint sem tilefni hatursglæpa.

Nema þá helst í Noregi, en einnig þar í landi er lítil réttarvernd í boði fyrir einstaklinga, sem verða fyrir hótunum um kynbundið ofbeldi og dreifingu mynda sem brjóta á persónuvernd, en slíkum hótunum er næstum eingöngu beint að konum.

Hatursorðræða á netinu ofarlega á dagskrá stjórnmálafólks

Moa Bladini kortlagði réttarfarsreglur um hatursorðræðu og hótanir á netinu út frá sjónarhorni jafnréttis, að beiðni Norrænu ráðherranefndarinnar um jafnréttismál.

Hatursorðræða á netinu er ofarlega á dagskrá ráðherranna enda má skoða hana frá ýmsum hliðum jafnréttis:

Glæpir sem karlar verða fyrir á netinu eru hefðbundnari, t.a.m. hótanir og aðkast vegna vinnu þeirra og færni. En þegar um konur er að ræða verður hatursorðræðan kynferðislegri og lituð af kynjafordómum. Hótanirnar beinast að einstaklingnum sjálfrum frekar en starfi hans. Rannsóknir benda til þess að konur á opinberum vettvangi verði helmingi oftar þolendur en karlar, auk þess sem það eru yfirleitt karlar sem standa að baki hatursorðræðunni.

Einfölduð mynd af tjáningarfrelsinu

Hvarvetna á Norðurlöndum fer fram pólitísk umræða um hvernig kynjafordómar og hatursorðræða veldur þöggun í hinu opinbera rými. Ýmsir hópar verða fyrir barðinu og á sama tíma brýtur norrænt stjórnmálafólk heilann um hvar eigi að setja mörkin milli tjáningarfrelsis og persónuverndar.

„Á Norðurlöndum nýtur formlegt tjáningarfrelsi öflugrar verndar. Getur það leitt til þöggunar tiltekinna einstaklinga og fyrir vikið skerðisttjáningarfrelsi þeirra til muna. Okkur hættir til að ganga út frá alltof einfaldri mynd af tjáningarfrelsinu,“ segir Moa Bladini.

Ein niðurstaða kortlagningarinnar er sú að einstaklingar sem verða fyrir hatursorðræðu á netinu vegna kynferðis síns, njóti ekki sömu réttarverndar og þolendur sem verða fyrir hatursorðræðu vegna hörundslitar, uppruna, kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar. Þessar ástæður eru taldar upp í löggjöfinni um hatursglæpi.

Tillögur um aðgerðir

Moa Bladini leggur til eftirfarandi aðgerðir til að gera Norðurlöndin betur í stakk búin til að vinna gegn hatursorðræðu á netinu á grundvelli jafnréttis og á skilvirkan hátt:

  • Skeytið inn kynferði sem ástæðu í löggjöfina um hatursglæpi.
  • Tryggið að löggjöfin nái einnig til kláms án samþykkis (hrellikláms) og annarra alvarlegra persónuverndarbrota.
  • Aukið refsiábyrgð aðila sem halda úti vefgáttum á Internetinu.
  • Bætið réttarvernd blaðamanna, kjörinna fulltrúa (sem njóta sérstakrar verndar

í Danmörku), fræðimanna og listafólks, sér í lagi ef þessir aðilar verða fyrir skipulögðum hatursáróðri.

  • Veitið lögreglu og saksóknurunum betri fræðslu um hatursorðræðu á netinu og hatursglæpi með það fyrir augum að umræddir aðilar verði betur í stakk búnir að til sinna málum sem varða kynbundið hatur.
  • Semjið siðareglur fyrir aðila sem halda úti samskiptasíðum á Internetinu, helst í norrænu samstarfi og jafnvel alþjóðlegu samráði.

 

NIKK gefur skýrsluna út og hana má nálgast hér: Hat och hot på nätet