Krónprinsparið tekur þátt í verðlaunaafhendingu Norðurlandaráðs

28.10.16 | Fréttir
Det danske Kronprinspar
Hans hátign Friðrik, krónprins Dana, og Mary krónprinsessa verða bæði viðstödd verðlaunaafhendingu Norðurlandaráðs 1. nóvember í tónleikahúsi danska ríkisútvarpsins, DR.

Dansk-sænska söngkonan Caroline Henderson er kynnir verðlaunaafhendingarinnar þar sem verðlaun Norðurlandaráðs fyrir barna- og unglingabókmenntir, kvikmyndir, bókmenntir, starf að umhverfismálum og tónlist verða afhent af fyrri handhöfum þeirra.

Verðlaunaafhendingunni verður streymt beint á streymiþjónustu DR, DR TV, og þar verður einnig hægt að horfa á hana síðar. Athöfninni verður jafnframt streymt á RÚV og sænskumælandi hluta finnska ríkisútvarpsins YLE. Norska ríkisútvarpið streymir afhendingunni á nrk.no og sendir athöfnina með texta á rásinni NRK2 miðvikudagskvöldið 2. nóvember. Sænska ríkissjónvarpið SVT sendir verðlaunaafhendinguna út með lítilsháttar seinkun á SVT Play. Hún verður jafnframt sýnd í Færeyjum.

Verðlaunaafhending Norðurlandaráðs fer fram í tengslum við þing ráðsins í Kaupmannahöfn dagana 1.–3. nóvember.