Leikskólar og grunnskólar geta spornað við ofbeldisfullu ofstæki

04.05.17 | Fréttir
MR-U møde i Oslo
Photographer
Frøydis Johannessen
Menntamálaráðherrar Norðurlanda funduðu í Ósló á fimmtudaginn þar sem þeir ræddu lýðræði og þátttöku allra. Norrænt samstarf hyggst efla þekkingargrunn fyrir framlag menntunar til fyrirbyggjandi aðgerða gegn innrætingu ofstækis, ofbeldisfullri öfgahyggju og mismunar í samfélaginu.

Jaðarsetning einstaklings hefst oft í æsku. Menntamálaráðherrar Norðurlanda hyggjast beita sér fyrir því að börnum og ungmennum finnist þau vera á heimavelli í leikskólum og grunnskólum.

„Heimurinn tekur sífellt örari breytingum og mikilvægt er að við tökum vel á móti börnum sem til okkar koma,“ segir Torbjørn Røe Isaksen, þekkingarráðherra Noregs.

Aldrei eins brýnt að efla lýðræðið

Norðmenn gegna formennsku í Norrænu ráðherranefndinni á þessu ári og var norski þekkingarráðherrann gestgjafi ráðherrafundarins í Ósló 4. maí. 

 „Við á Norðurlöndum höfum góðan grunn að byggja á. Á tímum þegar hætt er við jaðarsetningu og öfgahyggju er brýnna en nokkurn tíma fyrr að styðja við lýðræði, jafnræði og jafnrétti,“ sagði Torbjørn Røe Isaksen þegar hann bauð norrænum kollegum sínum til þemaumræðu með yfirskriftinni Uppeldishlutverk menntunar á tímum andstæðna og öfgahyggju. Hvernig stuðla leikskólar og grunnskólar að samfélagi án aðgreiningar? Hvaða hlutverki gegna íhugun og gagnrýnin hugsun í skólum?

„Það er afar gagnlegt að skoða skóla án aðgreiningar með norrænum gleraugum. Samfélög okkar eru svipuð og viðfangsefnin þau sömu, en reynsla þjóðanna er mismunandi. Svíar hafa til að mynda meiri reynslu af aðlögunarmálum en Finnar,“ sagði Sanni Grahn-Laasonen, mennta- og menningarmálaráðherra Finnlands.

Helene Hellmark Knutson, ráðherra æðri menntunar og rannsókna í Svíþjóð, benti á skólann sem vettvang til eflingar lýðræðis á umbrotatímum:

„Við viljum standa vörð um sameiginlega samfélagsgerð okkar og þá er mikilvægt að þjóðirnar skiptist á reynslu og þekkingu.“

Hvernig menntun spornar við innrætingu öfgahyggju, ofbeldisfullu ofstæki og skörpum andstæðum

Ýmsar alþjóða- og rannsóknastofnanir, þar á meðal Menningarmálastofnun SÞ (UNESCO), ESB, Evrópuráðið og Efnahags- og framfarastofnunin (OECD), vinna að því að efla þekkingargrunn fyrir framlag menntunar til þess að fyrirbyggja innrætingu ofstækis, ofbeldisfulla öfgahyggju og andstæður í samfélaginu. Ýmis lönd, einnig utan Norðurlanda, vilja auka framlag menntunar til eflingar lýðræðis og samfélagsþátttöku, þróa færni nemenda til íhugunar og gagnrýninnar hugsunar og styðja við uppeldishlutverk skólans.

Á Norðurlöndum, einnig Álandseyjum, Færeyjum og Grænlandi, er unnið í löndunum og sameiginlega að því að efla fyrirbyggjandi aðgerðir, en þar má nefna áætlun Norrænu ráðherranefndarinnar um Lýðræði, aðlögun og öryggi. Norrænt tengslanet innan menntageirans hefur verið sett á fót, skipað sérfræðingum á þessu sviði í ráðuneytum og hjá öðrum yfirvöldum.

„Árásin í Stokkhólmi í apríl hafði mikil áhrif á okkur. Einnig á Álandseyjum leggjum við áherslu á að fyrirbyggja hryðjuverk með því að stuðla að samfélagsþátttöku allra. Við teljum að tungumálakennsla skipti mestu máli. Íbúar eyjanna eru ekki nema tæplega 30 þúsund talsins, en þar er að finna 100 ólík þjóðerni og 60 tungumál. Móðurmálskennsla og sænskukennsla eru í fyrirrúmi,“ segir Tony Asumaa, mennta- og menningarmálaráðherra Álandseyja.

Eflt og endurnýjað samstarf Norðurlanda um menntamál

Norræna embættismannanefndin um menntamál og rannsóknir (EK-U) ákvað í febrúar að hefja stefnumótunarstarf á sviði menntamála sem veita á svör við viðfangsefnum samtímans og framtíðar.

Hópur sérfræðinga á að vinna skýrslu með skýrum fyrirmælum um hvernig efla megi og endurnýja norrænt menntamálasamstarf innan vébanda Norrænu ráðherranefndarinnar. Hópinn skipa Aida Hadzialic, fyrrum framhaldsskóla- og þekkingarráðherra Svíþjóðar, Thomas Wilhelmsson, heiðursdoktor við háskólann í Helsinki og Petter Skarheim, ráðuneytisstjóri í norska þekkingarráðineytinu. Skýrslan er væntanleg í nóvember 2017.