Líflegar umræður um tungumál í Norðurlandaráði
Í dag eru danska, norska og sænska opinber vinnutungumál í norrænu samstarfi. Stór hluti skjala er þýddur á finnsku og íslensku, en ekki öll skjöl. Hægt er að panta túlkun á finnsku og íslensku þegar þörf er á.
Margvísleg rök eru fyrir því að endurskoða vinnutungumálin. Þeir sem vilja breytingu leggja áherslu á ójöfnuð, og að þeir þingmenn sem hafi annað móðurmál en skandinavísku málin þrjú eigi minni möguleika á að sinna verkefnum sínum á vettvangi ráðsins. Í umræðunni var einnig lögð áhersla á tungumáls- og menningarlega samkennd sem eina af grunnstoðum norræns samstarfs.
Samstarf við önnur lönd er mikilvægt, en enn mikilvægara er að innra starfi okkar sé þannig háttað að allir gangi jafnir að borði.Það umbótastarf sem nú er lagt til hefði töluverðar efnahagslegar afleiðingar. Áætlaður viðbótarkostnaður er um fjórar milljónir da.kr., sem myndi kalla á breytingar á forgangsröðun fjárhagsáætlunar Norðurlandaráðs eða auknar fjárveitingar.
„Þetta er okkur mikilvægt prinsippmál,“ segir varaforseti Norðurlandaráðs, Juho Eerola frá Finnlandi. Hann bendir einnig á að umbætur á þessu sviði myndu að öllum líkindum auka áhuga á norrænu samstarfi í Finnlandi og á Íslandi.
Silja Dögg Gunnarsdóttir tók undir orð hans.
„Það er ekki sanngjarnt að aðeins hluti fundarskjala sé þýddur á íslensku, og þar að auki fáum við þýðingarnar svo seint að það er erfitt að finna tíma til að lesa þær fyrir fundina,“ bendir hún á.
Maarit Feldt-Ranta segir málið snúast um forgangsröðun.
„Á hvað leggjum við megináherslu í samstarfi okkar? Undanfarinn áratug höfum við aukið samstarfið, sem nær nú einnig til málefna Eystrasaltsríkjanna, Rússlands, norðurslóða og Slésvíkur-Holtsetalands. Samstarf við önnur lönd er mikilvægt, en enn mikilvægara er að innra starfi okkar sé þannig háttað að allir gangi jafnir að borði,“ segir hún.
Sonja Mandt frá Noregi leggur áherslu á hina menningarlegu samkennd Norðurlandabúa.
„Ef það bætir gagnkvæman málskilning að þýða fundargögn á finnsku og íslensku í auknum mæli, þá felst í því aukinn ávinningur,“ segir hún. Mandt vill fyrst og fremst forðast það að vinnutungumálið verði enska.
„Samstarf okkar er byggt á samskiptum og gagnkvæmum skilningi. Það fælist viss ósigur í því að skipta yfir í ensku,“ segir Mandt.
Að tillögu Britt Lundberg, forseta Norðurlandaráðs, ákvað forsætisnefndin að senda málið í umsagnarferli til landsdeilda landanna, auk norrænu þekkingar- og menningarnefndarinnar. Að því loknu verður það tekið upp að nýju til afgreiðslu og ákvörðunar í forsætisnefnd.