Norðurlandaráð: Mikilvægt að fjárfesta í járnbrautum eigi framtíðarsýn norræns samstarfs fyrir árið 2030 að nást
Járnbrautir í þágu sjálfbærni og loftslagsins
Fjárfestingar í járnbrautum snúast ekki bara um að bæta inniviði heldur eru þær mikilvægur hluti af loftslagsaðgerðum á svæðinu, að sögn Kristinar Háfoss.
„Til þess að okkur takist að draga úr koldíoxíðslosun og uppfylla þau metnaðarfullu markmið sem við höfum sett okkur í loftslagsmálum þurfum við að fjárfesta í járnbrautum og öðrum sjálfbærum innviðum sem geta keppt við aðra ferðamáta og stutt við græn umskipti,“ segir hún.
Fjárfestingar í járnbrautum gera okkur kleift að færa okkur frá vega- og flugsamgöngum yfir í umhverfisvænni kosti í mörgum af norrænu löndunum. Þetta skiptir því sköpum ef Norðurlönd eiga að standa undir þeim markmiðum sem þau hafa sett sér.
Innviðir og samkeppnishæfni
Auk loftslagsmálanna snúast fjárfestingar í járnbrautum einnig um að auka samkeppnishæfni Norðurlanda á heimsvísu. Skilvirk og nútímaleg samgöngukerfi eru nauðsynleg til þess að fyrirtæki á svæðinu geti keppt við aðila annars staðar í heiminum og Norðurlönd geti boðið borgurum sínum upp á starfhæfar almenningssamgöngur.
Norðurlandaráð vill jafnframt endurvekja norræna ráðherranefnd um samgöngumál til þess að geta uppfyllt þá framtíðarsýn að Norðurlönd verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims ásamt því að geta tekist á við sameiginlegar áskoranir Norðurlanda í samgöngumálum.
Kristina Háfoss bendir á að öflugir innviðir séu einnig forsenda sameiginlegra lausna í almenningssamgöngum, hagvaxtar og samþættingar á svæðinu.
„Þetta snýst um að skapa forsendur fyrir hröðum, skilvirkum og samkeppnishæfum flutningi á vörum og fólki yfir norræn landamæri og áfram út í Evrópu og heiminn og þannig styrkja hinn sameiginlega markað okkar.
Öryggismál og NATO-aðlögun
Annar mikilvægur þáttur sem Norðurlandaráð bendir á í þessu samhengi eru öryggismáli. Samhliða aukinni viðveru NATO á Norðurlöndum verður sífellt mikilvægara að samræma samgönguinnviði á öllum Norðurlöndum til að mæta hernaðarlegum þörfum.
„Öryggis- og varnarmál eru gríðarlega mikilvæg í þeirri óvissu sem nú er upp í heimsmálunum og við á Norðurlöndum verðum að tryggja að innviðir okkar uppfylli þær kröfur sem þarf á landi, sjó og í lofti,“ segir Kristina Háfoss.
Norðurlandaráð lítur á vinnuna við að þróa og bæta járnbrautartengingar sem eitt af mörgum mikilvægum skrefum í þá átt að efla sameiginleg öryggis- og varnarmál á svæðinu. Með því að fjárfesta í sterkum innviðum verða Norðurlönd betur í stakk búin til þess að mæta utanaðkomandi ógnum og um leið efla samheldni innan svæðisins.
Beinna aðgerða þörf
Þörf er á beinum aðgerðum og pólitískum vilja til þess að ýta málinu áfram. Kristina Háfoss bendir á að þörf sé á enn áherslu og þunga af hálfu allra norrænu landanna til þess að þetta verði að veruleika og tryggja megi að Norðurlönd verði fyrirmynd annarra þegar kemur að sjálfbærni, sjálfbærri samþættingu og öryggismálum.