Norræn sjónarmið á helsta fundi SÞ um málefni fatlaðs fólks

15.06.17 | Fréttir
Funksjonshemmet utenfor FN
Photographer
norden.org
„Við tókum mikilvægt skref í norrænu samstarfi um málefni fatlaðs fólks með því að standa að sameiginlegri kynningu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Það er eftirspurn eftir sjónarmiðum og reynslu Norðurlandanna,“ segir Maria Montefusco hjá Norrænu velferðarmiðstöðinni. Hún er ritari Norræna ráðsins um málefni fatlaðs fólks (NHR) og er nú stödd í New York.

Í þessari viku fer fram 10. ráðstefna aðildarríkjanna um Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (UNCRPD) í aðalbækistöðvunum í New York. Ráðstefnan fjallar um hvernig Mannréttindasáttmáli SÞ fyrir fatlað fólk getur tryggt fulla þátttöku í samfélaginu.

Norrænn hliðarviðburður í fyrsta sinn

Norrænn hliðarviðburður var haldinn í fyrsta sinn og fjallaði hann um hvernig beita má tölfræði og vísum við innleiðingu og eftirfylgni sáttmálans. Norðmenn áttu frumkvæði að viðburðinum en þeir gegna formennsku í norrænu samstarfi á þessu ári. Að framkvæmdinni stóðu norsk yfirvöld, Barne-, ungdoms- og familiedirektoratet, í samstarfi við Norrænu velferðarmiðstöðina. 

„Norðurlöndin kynna hvernig þau beita tölfræði í vinnu sinni með SÞ-sáttmálann og heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun til ársins 2030. Við þurfum hreinlega fleiri og betri tölur til að geta skorið úr um hvort aðgerðir sem eiga að stuðla að velferð og þátttöku bera tilætlaðan árangur. Norræna velferðarmiðstöðin hóf nýlega verkefni á þessu sviði og er það mikilvægt framtíðarverkefni um allan heim,“ segir Maria Montefusco. 

Norðurlöndin hafa margt fram að færa

 Charlotte McClain-Nhla, sérfræðingur Alþjóðabankans í málefnum fatlaðs fólks, stjórnaði viðburðinum:

„Viðburðurinn bauð upp á gífurlega áhugaverða þekkingu og reynslu frá Norðurlöndum. Þetta er búið að vera mjög lærdómsríkt. Margar þjóðar leita til Norðurlanda eftir góðum fordæmum og hugmyndum og það er von mín að Norðurlöndin standi áfram að fundum af þessu tagi.“

Norðurlöndin vinna saman á vettvangi SÞ um jafnréttismál þar sem þau standa að árlegum viðburðum í tengslum við fund kvennanefndar SÞ. Maria Montefusco gæti vel hugsað sér að sama gerðist í samstarfi um málefna fatlaðs fólks:

„Ég vildi óska þess að málefni fatlaðs fólks fengju sama pólitíska vægi og jafnréttismálin og að þetta yrðu árlegir viðburðir.“

Sjáið tölfræðimálþingið í heild sinni í vefsjónvarpi Sameinuðu þjóðanna: