Norrænt nýsköpunarsetur fyrir græna tækni opnað í Sameinuðu arabísku furstadæmunum

30.01.15 | Fréttir
Forseti Íslands hefur formlega opnað norænt nýsköpunarsetur fyrir græna tækni í Masdar City í Abu Dhabi. Setrinu, sem er undir stjórn Norrænu ráðherranefndarinnar, er ætlað að auðvelda norrænum fyrirtækjum á sviði grænnar tækni að leita nýrra viðskiptatækifæra í Furstadæmunum og á Persaflóasvæðinu.

Nýja setrið mun laða til sín fyrirtæki sem þegar reka starfsemi í Furstadæmunum og vera hentugur upphafsreitur fyrir ný fyrirtæki. Það mun tengja saman Masdar City og Norðurlöndin og sameina þar með tvö traust vörumerki.

Allnokkur norræn fyrirtæki hafa þegar lýst áhuga á að leigja skrifstofuaðstöðu í nýja setrinu, en til stendur að fullskipa það fljótlega.

Saman á alþjóðamarkaði

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, segir græna tækni einn helsta styrkleika Norðurlanda. Hann vonar að sem flest fyrirtæki muni sjá sér hag í því að nota nýju aðstöðuna.

„Vonandi munu fyrirtæki í löndunum gera sér ljóst að um er að ræða meira en vanalega skrifstofuaðstöðu. Þetta er upphaf nýrra tækifæra og hnattrænna umbreytinga. Möguleikarnir eru að mínu mati óendanlegir,“ sagði forsetinn í opnunarávarpi sínu.

Abu Dhabi og Sameinuðu arabísku furstadæmin hafa á skömmum tíma öðlast aukið vægi í alþjóðlegu samhengi sem eitt af höfuðvígjum endurnýjanlegrar orku og grænnar tækni. Masdar City er sjálfbær þéttbýliskjarni með kolefnislosun í lágmarki og þar hefur Alþjóðastofnun um endurnýjanlega orku (IRENA) varanlegt aðsetur.

Markaðssetning Norðurlanda

Nýsköpunarsetrið er ávöxtur verkefnis Norrænu ráðherranefndarinnar um atvinnu-, orku- og byggðamál og er undir umsjón Norrænu nýsköpunarmiðstöðvarinnar, sem rekin er af Norrænu ráðherranefndinni og starfar að því að efla viðskipti og nýsköpun þvert á norræn landamæri.

Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, fagnar framtakinu:

„Það er fagnaðarefni að norrænu samstarfi vaxi fiskur um hrygg í Furstadæmunum og við hlökkum til að fylgjast með því mikilvæga starfi sem nú er ýtt úr vör í Masdar City. Í norrænu samstarfi er mikil áhersla lögð á grænan hagvöxt og nýr vettvangur fyrir grænar tæknilausnir er spennandi viðbót á því sviði. Ný stefna um markaðssetningu Norðurlanda er einnig í vinnslu, en Norðurlöndin hafa margt að bjóða umheiminum á þessu sviði.“

„Eina vitið“

Að sögn Ólafs Ragnars er það eina vitið að koma á fót samnorrænum vettvangi á borð við nýsköpunarsetrið.

„Það má segja að Norðurlöndin séu Sílikondalur hinnar endurnýjanlegu orku, en þau hafa áorkað miklu í þeim málum þegar allt er saman talið. Með því að opna hér setur nýtum við þann styrk sem felst í samanlögðum afrekum norrænu ríkjanna á þessu sviði,“ sagði forsetinn á opnunarviðburðinum.