Staða Færeyja í norrænu samstarfi til umræðu

03.04.17 | Fréttir
Nordens hus på Ved Stranden
Ljósmyndari
Mary Gestrin
Er hægt að efla stöðu sjálfstjórnarsvæðanna í norrænu samstarfi? Þetta kom til tals í tengslum við umsókn Færeyinga um fullgilda aðild að Norðurlandaráði, sem rædd var á forsætisnefndarfundi ráðsins í Stokkhólmi 3. apríl.

Gerð hefur verið úttekt á málinu og leiddi hún í ljós að ótvíræðar lagalegar hindranir eru fyrir því að hægt sé að samþykkja ósk Færeyinga um fullgilda aðild. Samkvæmt dönsku stjórnarskránni er Færeyingum ekki frjálst að gera samninga við alþjóðlegar stofnanir þar sem öll aðildarlönd eru fullvalda ríki. Norðurlandaráð telst slík stofnun samkvæmt Helsingfors-samningnum, sem er lagalegur grunnur norræns samstarfs.

„Málið hefur verið skoðað afar ítarlega frá lagalegu sjónarmiði,“ segir forseti Norðurlandaráðs, Britt Lundberg. „En við viljum láta vinna ítarlegri úttekt á öðrum hliðum þess.“

Forsætisnefndin ákvað að samhliða undirbúningi málsins yrði unnin úttekt á því hvernig þróa megi möguleika sjálfstjórnarsvæðanna á að starfa á vettvangi norræns samstarfs innan núgildandi lagaramma. Jafnframt er vilji til þess að meta hversu vel norrænt samstarf hefur framfylgt þeim reglugerðum sem kveða á um stöðu sjálfstjórnarsvæðanna á vettvangi samstarfsins.

Í október 2016 sóttu Færeyingar um að fá fullgilda aðild að Norðurlandaráði og Norrænu ráðherranefndinni.  Fjallað var um málið í fyrsta sinn á fundi forsætisnefndar Norðurlandaráðs í nóvember. 

Ósk Færeyinga um fullgilda aðild er framhald á afar löngu pólitísku ferli. Allar götur síðan hið norræna samstarf hófst hefur verið sterkur pólitískur vilji til þess að Færeyingar fái fullgilda aðild að því.

Ákvörðun um málið verður tekin í tengslum við Norðurlandaráðsþing í haust.