Lífleg norræn umræða um Bandaríkin og Norðurlönd

04.04.17 | Fréttir
Temasession 2017
Ljósmyndari
Magnus Fröderberg/norden.org
Á óróatímum sem þessum er sérlega mikilvægt að halda norrænum gildum á lofti. Þennan boðskap mátti finna í mörgum þeirra erinda sem flutt voru þegar Norðurlandaráð ræddi tengsl Bandaríkjanna og Norðurlanda á þemaþingi sínu í Stokkhólmi 4. apríl.

Yfirskrift umræðunnar var Norðurlönd og Bandaríkin –nýjar forsendur og var umfjöllunarefnið þau áhrif sem þróun mála í Bandaríkjunum eftir forsetaskiptin hefur á Norðurlönd og norrænt samstarf. Margir ræðumanna lögðu áherslu á mikilvægi aukins norræns samstarfs. Var boðskapurinn sá að sameinuð rödd Norðurlanda hefði meira vægi en raddir landanna hvers fyrir sig.

Reynslan sýnir að þegar norrænu löndin tala einum rómi á alþjóðlegum fundum geta áhrifin orðið umtalsverð. Þegar við Norðurlöndin tjáum okkur á alþjóðavettvangi, þá hlustar heimurinn,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, sem er í flokkahópi miðjumanna.

Tuomioja lagði áherslu á friðarstarf

Margir þingmannanna vöktu máls á norrænum gildum, svo sem jafnrétti, mannréttindum, starfi að loftslags- og friðarmálum, umburðarlyndi og gagnsæi, og töldu ástæðu til að leggja á þau sérstaka áherslu eins og staðan er nú.

Við græðum ekki á því að reisa veggi og snúa okkur inn á við, við græðum á því að byggja brýr og eiga í samstarfi hvert við annað.

Erkki Tuomioja, sem er í flokkahópi jafnaðarmanna, sagði að við lifðum á tímum stríðsæsinga og hernaðaruppbyggingar.

„Þess vegna er brýnt að hlúa einnig að þeim sviðum þar sem Norðurlöndin eiga góða möguleika á að leggja sitt af mörkum til aukins stöðugleika og friðar. Þar kemur til hættustjórnun, sáttamiðlun, þróunaraðstoð, stefna í umhverfismálum, loftslagsbreytingar, jafnréttismál, mannréttindi og fleira,“ sagði Tuomioja.

„Stöndum vörð um frjálsa verslun“

Hans Wallmark, sem er í flokkahópi hægrimanna, vakti meðal annars máls á mikilvægi þess að standa vörð um frjálsa verslun.

„Við græðum ekki á því að reisa veggi og snúa okkur inn á við, við græðum á því að byggja brýr og eiga í samstarfi hvert við annað,“ sagði Wallmark.

Líkt og Erkki Tuomioja lagði Jonas Sjöstedt, sem er í flokkahópi vinstri sósíalista og grænna, áherslu á friðarstarf og lagði ennfremur til að norrænu löndin tækju frumkvæði og hættu útflutningi vopna til einræðisríkja, stríðshrjáðra svæða og ríkja sem stunda mannréttindabrot.

„Við leggjum til að Norðurlönd og norðurslóðir verði kjarnavopnalaust svæði. Við leggjum til að Norðurlönd sameinist í því að styðja friðargæsluaðgerðir Sameinuðu þjóðanna,“ sagði Sjöstedt.

Margir ræðumanna voru sammála um mikilvægi þess að halda góðum tengslum við Bandaríkin og nýja ríkisstjórn þeirra, einnig nú í forsetatíð Donalds Trump. Þar á meðal var Juho Eerola, sem er í flokkahópnum Norrænu frelsi.

„Frá norrænu sjónarhorni er mikilvægt að viðhalda góðum og nánum tengslum við Bandaríkin,“ sagði Eerola, sem kallaði einnig eftir auknum tengslum milli Norðurlandaráðs og bandaríska þingsins.

Stór hluti umræðunnar snerist um öryggismál og hlutverk NATÓ í valdatíð Trumps.

Ráðherrar tóku þátt

Þrír norrænir samstarfsráðherrar tóku þátt í umræðunni. Margot Wallström, norrænn samstarfsráðherra og utanríkisráðherra Svíþjóðar, var frummælandi umræðunnar. Hún vakti meðal annars máls á loftslagsmálunum og sagði að Norðurlöndin ættu að koma á beinum tengslum við fylki Bandaríkjanna.

„Metnaðarfull stefna í umhverfis- og loftslagsmálum er forsenda sjálfbærrar þróunar í efnahagsmálum. Fylgi Bandaríkin þeirri stefnu sem Trump forseti hefur boðað er hætt við því að þau haldi ekki í við þá þróun. Því verðum við að þróa nýtt, stefnumarkandi samstarf við fylki sem deila gildum okkar og hugarfari, og sýna hvernig Norðurlöndin geta stuðlað að auknum hagvexti í Bandaríkjunum,“ sagði Wallström.

Frank Bakke-Jensen, samstarfsráðherra Noregs sagði Bandaríkin vera mikilvægustu bandamenn Noregs og að Norðmenn ættu allt sitt undir góðum samskiptum við Bandaríkin, sama hver sæti þar í forsetastóli:

„Góð samskipti okkar við Bandaríkin aftra okkur ekki frá því að andmæla þegar við erum ósammála. Öðru nær.“

Frank Bakke-Jensen sagði jafnframt að aðild Noregs að NATO hefði stuðlað að öryggi í norðri og lagt grunn að breiðara samstarfi einnig við Rússa.