Susanna Mälkki hlaut tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs 2017

01.11.17 | Fréttir
Vinnare av Nordiska rådets musikpris 2017
Photographer
Magnus Froderberg/norden.org
Finnski hljómsveitarstjórinn Susanna Mälkki hlaut tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs 2017. Bróðir hennar, Mikko Mälkki, og Kim Kuusi, meðlimur dómnefndar, tóku við verðlaununum fyrir hennar hönd. Verðlaunahafi síðasta árs, Pekka Kuusisto, afhenti verðlaunin við verðlaunaathöfn Norðurlandaráðs í Finlandia-húsinu í Helsinki.

Rökstuðningur dómnefndar:

Susanna Mälkki er fjölhæfur og einlægur listamaður í fremstu röð. Hún er jafnvíg á sígilda tónlist og samtímatónlist og þekkt fyrir að fara eigin leiðir á sígilda sviðinu. Hún er einn fremsti hljómsveitarstjóri heims.

Susanna Mälkki rýnir í og víkkar út hljóðheiminn og litbrigði tónanna í hverju verki sem hún stjórnar. Hún endurtúlkar hefðbundin meistaraverk tónlistarsögunnar með frumlegum og nútímalegum hætti og kemur hlustandanum reglulega á óvart með nýrri og ferskri nálgun á ýmis smáatriði og hljóðmynstur.

Áður en Susanna Mälkki sneri sér að hljómsveitarstjórn átti hún farsælan feril sem sellóleikari, en sú reynsla hefur nýst henni framúrskarandi vel við hljómsveitarstjórnina. Fyrir henni felst hlutverk stjórnandans fyrst og fremst í samstarfi við tónlistarfólk og tónskáld.

Susanna Mälkki er aðalstjórnandi Fílharmóníusveitarinnar í Helsinki, helsti gestastjórnandi Fílharmóníusveitarinnar í Los Angeles, gestastjórnandi hljómsveita í fremstu röð um allan heim og sannur meistari á sviði norrænnar nútímatónlistar. Hún færir nýja orku og ný sjónarhorn inn á starfssvið sitt og heldur ávallt einbeitingunni á hinu mikilvægasta af öllu: tónlistinni. Þannig er hún öðrum innblástur og nýskapandi fyrirmynd, sem er ómetanlegt fyrir framtíð nútímatónlistar og sígildrar tónlistar.