Svíþjóðardemókrötum hleypt inn í Norrænt frelsi

08.08.17 | Fréttir
Juho Eerola
Ljósmyndari
Magnus Fröderberg/norden.org
Svíþjóðardemókrötunum (SD) býðst nú í fyrsta sinn að ganga í flokkahóp í Norðurlandaráði, nánar tiltekið Norrænt frelsi þar sem fyrir eru Danski þjóðarflokkurinn og Sannir Finnar. Var þetta ákveðið á sumarfundi flokkahópsins.

„Við höfum velt þessu fyrir okkur í fimm ár og teljum að nú sé rétti tíminn kominn,“ segir Juho Eerola, formaður Norræns frelsis og varaforseti Norðurlandaráðs.

Hingað til hafa Svíþjóðardemókratarnir staðið utan við flokkahópa Norðurlandaráðs, samstarfsvettvangs norrænu þjóðþinganna.

Flokkahópurinn Norrænt frelsi var stofnaður árið 2012 en hann skipa þingmenn Sannra Finna og Danska þjóðarflokksins.

Norrænt frelsi lýkur nú upp dyrum fyrir Svíþjóðardemókrötum í kjölfar þess að flokkur Sannra Finna klofnaði í herðar niður.

Nýja flokksforystan jákvæð í garð SD

Timo Soini, stofnanda og fyrrum formanni Sannra Finna, hugnaðist ekki samstarf við Svíþjóðardemókratana en það á ekki við um nýja formanninn, Jussi Halla-aho.

„Ég hef rætt málið við Jussi Halla-aho og hann hefur ekkert á móti því að eiga samstarf við Svíþjóðardemókratana,“ segir Juho Eerola.

Aron Emilsson, leiðtogi Svíþjóðardemókratanna í Norðurlandaráði, skrifar í athugasemd að það sé „eðlilegt og mjög kærkomið“ að SD geti nú myndað flokkahóp með norrænum systraflokkum og bætir við:

„Þetta er augljóslega stórt skref fram á við fyrir hina íhaldssömu félagshyggjuhreyfingu á Norðurlöndum.“

Framfaraflokkurinn velkominn

Þingmenn norska Framfaraflokksins standa utan við flokkahópa í Norðurlandaráði, en Juho Eerola segir þá einnig velkomna í Norrænt frelsi:

„Við erum reiðubúnir að taka á móti þeim, en þeir segjast ekki þurfa neinn flokkahóp í Norðurlandaráði.“

Á heimasíðu Norræns frelsis segir að flokkahópurinn standi fyrir „frjálsum og lýðræðislegum Norðurlöndum“ og „styðji hugmyndina um sjálfstæð og fullvalda ríki þar sem almenningur hafi sjálfsákvörðunarrétt í sínu eigin landi“.

 

 

Tengiliður