Þverfaglegs samstarfs þörf til að draga úr brottfalli úr skólum

27.06.17 | Fréttir
Norræna þekkingar- og menningarnefnd Norðurlandaráðs kemur saman til sumarfundar í Helsinki 26.–28. júní 2017. Eitt af forgangsmálum á formennskuári Finnlands í Norðurlandaráði er að styðja við þróun námsleiða fyrir börn og ungmenni í áhættuhópum. Á fyrsta degi sumarfundarins var því efnt til málþings sérfræðinga og pallborðsumræðna um brottfall úr skóla á Norðurlöndum.

Viðfangsefni tengd brottfalli eru svipuð í öllum norrænu löndunum, en með því að miðla þekkingu á verkefnum og árangri milli landanna er hægt að draga úr brottfalli og afstýra ýmiss konar mótlæti hjá einstaklingum í áhættuhópum. 

Jorodd Asphjell, formaður þekkingar- og menningarnefndarinnar, bendir á mikilvægi þess að auka aðkomu kennara, sérkennara og sálfræðinga að baráttunni gegn brottfalli.

„Við verðum að vera markvissari í aðgerðum og líta til þess hvar þörfin er mest. Forsenda þess að draga úr brottfalli er greinargóð kortlagning,“ segir Asphjell.

1 af 10 í áhættuhópi

Margt ungt fólk á Norðurlöndum í dag hefur ekki lokið framhaldsskólanámi, og eru atvinnuhorfur þess mun lakari en ungmenna með framhaldsskólamenntun. Fólk án atvinnu og menntunar er í mikilli hættu á að lenda utangarðs í þjóðfélaginu. Samkvæmt nýlegri tölfræði upplifir ungt fólk á Norðurlöndum andlega vanlíðan í vaxandi mæli. Auk þess eiga 9-12% ungmenna í norrænu löndunum á hættu að lenda í þeim aðstæðum að vera hvorki með atvinnu né í námi. Algengustu orsakir þessa eru andleg vanlíðan, að ungmennunum finnist ekki vera þörf fyrir þau eða að þau séu utanveltu félagslega.

„Við þurfum að einbeita okkur að þessum hópi. Eins og við vitum er snemmtæk íhlutun kostnaðarhagkvæm en íhlutun á seinni stigum oft kostnaðarsöm,“ segir Lidija Kolouh-Söderlund hjá Norrænu velferðarmiðstöðinni.

„Helsta orsök brottfalls er einelti. Næstalgengasta orsökin er skortur á stuðningi í námi. Á endanum megnar einstaklingurinn einfaldlega ekki að stunda námið lengur, streitan verður honum um megn og hann hættir,“ segir Anna Liljeström, sem starfar við PlugIn-verkefnið.

Verkefnið PlugIn hefur náð til 11 þúsund ungmenna í Svíþjóð sem eru í áhættuhópi fyrir brottfall úr skólum. Markmið verkefnisins er að deila þekkingu og greina, þróa og meta aðferðir í starfi sem miðar að því að draga úr brottfalli.

„Sérlega mikilvægt er að skapa þannig andrúmsloft í skólunum að öllum finnist þeir velkomnir, og að reyna að hafa áhrif á stofnanatengda þætti. Það er engin spurning að draga mun úr brottfalli ef við stuðlum að bættu andrúmslofti og vinnum gegn einelti,“ segir Liljeström.

Raddir ungmenna verða að heyrast

Sérfræðingarnir á málþinginu voru sammála um að heildrænnar nálgunar væri þörf til að draga úr brottfalli, og um mikilvægi þess að hlusta á raddir ungmennanna.

„Þverfaglegt samstarf og snemmtæk íhlutun er fyrir öllu þegar kemur að því að draga úr brottfalli. Við þurfum að halda því áfram í sameiningu að miðla reynslu okkar Norðurlandabúa og læra hvert af öðru. Eitt af heimsmarkmiðum SÞ er að öll börn skuli eiga rétt á menntun. Í þeim anda verðum við að halda ótrauð áfram að hjálpa ungmennum að ljúka námi og koma sér á réttan kjöl í lífinu,“ segir Jorodd Asphjell, formaður nefndarinnar.