Útgefnu norrænu efni safnað saman í snjallforrit

31.10.16 | Fréttir
NordPub app på iPad
Ljósmyndari
Niels Stern
Snjallforritið eða appið NordPub geymir þúsundir síðna með mikilsverðri þekkingu um Norðurlönd og norrænt samstarf, sem auðvelt er að nálgast í spjaldtölvu eða snjallsíma.
Það hefur aldrei verið auðveldara að nálgast nýjasta efnið sem gefið er út af Norðurlandaráði og Norrænu ráðherranefndinni. NordPub-appið veitir aðgang að miklum fjölda rita endurgjaldslaust. Appið veitir góða yfirsýn yfir efnið og einnig er hægt að leita að orðum og textabrotum. Hægt er að hala appinu niður endurgjaldslaust og einfalt að vista valdar síður sem eftirlætisefni eða deila þeim með vinum og samstarfsfólki.

„Það að draga úr magni útprentaðs efnis er í fullu samræmi við markmið Norrænu ráðherranefndarinnar um að starfa á eins sjálfbæran hátt og mögulegt er,“ segir Mary Gestrin, yfirmaður samskiptasviðs. Hún bendir einnig á að með tilkomu appsins verði stafrænt útgefið efni skjótt og örugglega aðgengilegt norrænum þingmönnum, ráðherrum og embættismönnum, sem þurfi að nota efnið við störf sín. 

Meðal útgefins efnis eru bæði fræðilegar skýrslur með norrænu sjónarhorni og almennar upplýsingar um norrænt samstarf. Þar á meðal eru ný skýrsla Pouls Nielsons um norrænan vinnumarkað, formennskuáætlun Norðmanna fyrir Norrænu ráðherranefndina árið 2017 og nýjustu útgáfur af norrænum samanburðartölum. Auðvelt er að leita að efni í appinu og fletta á milli síða, og einnig er efninu skipt upp eftir fagsviðum. Með því að virkja tilkynningar er hægt að fylgjast með nýju útgefnu efni á áhugasviði hvers og eins.

 

 

Heildargagnagrunnurinn með yfir 4000 endurgjaldslausum ritum Norrænu ráðherranefndarinnar og stofnana hennar er enn sem fyrr NordPub-vefgáttin. Þar er einnig hægt að panta prentaðar útgáfur af nýrri ritum. 

 

Hægt er að sækja NordPub appið án endurgjalds í AppStore eða á Google Play.