Vilja að finnska og íslenska verði opinber vinnutungumál í Norðurlandaráði: Spurning um jafnræði
Hinar fimm þjóðtungur norrænu ríkjanna eru nefndar í yfirlýsingu Norðurlandaráðs um norræna málstefnu frá árinu 2006. Vinnutungumál í norrænu samstarfi eru danska, norska og sænska.
Finnska og íslenska eru ekki vinnutungumál í Norðurlandaráði og hafa því lakari stöðu en hin málin á vettvangi norræns samstarfs.
Þetta er óréttlátt að mati landsdeildanna tveggja.
Það að tiltekin mál séu opinber vinnutungumál felur í sér að öll skjöl Norðurlandaráðs eru skrifuð á einhverju þessara mála. Mikilvægustu skjölin eru þýdd á finnsku og íslensku.
Formaður finnsku landsdeildarinnar, Juho Eerola, telur málefnið þýðingarmikið fyrir samstarf á vettvangi Norðurlandaráðs. Þar eð seinkun varð á fundadagskrá á þingi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn var tillagan send til umfjöllunar í forsætisnefnd án þess að umræða hefði átt sér stað á þinginu.
„Ég get unað því, svo lengi sem málið fær tilhlýðilega umfjöllun. Umræða á þinginu hefði kannski vakið meiri athygli, en málið snýst um mikilvægt grundvallaratriði. Eins og er fáum við þýðingar á allra mikilvægustu skjölum ekki í hendur fyrr en á síðustu stundu. Undirbúningur fyrir fundi verður því óhjákvæmilega lakari en ella,“ sagði Juho Eerola, fulltrúi í flokkahópnum Norrænu frelsi.
Finnsku- og íslenskumælandi þingmenn Norðurlandaráðs geta ekki afhent skrifstofu Norðurlandaráðs skriflegar fyrirspurnir, þingmannatillögur eða önnur skjöl á finnsku eða íslensku til umfjöllunar.
„Þetta er mikilvægt jafnræðismál og gleðiefni að það eigi góðan hljómgrunn meðal allra fulltrúa finnsku landsdeildarinnar. Íslendingarnir hafa einnig rekið sig á þennan vanda og studdu því tillögu okkar,“ sagði Juho Eerola.
Maarit Feldt-Ranta, varaformaður finnsku landsdeildarinnar, segir vera um prinsippmál að ræða.
„Ef skjöl eru ekki aðgengileg á móðurmáli fólks í tæka tíð hefur það ekki tök á að kynna sér málin sem skyldi. Góð tungumálakunnátta er forsenda þess að starfa á fjölþjóðlegum vettvangi, en tungumálakunnátta ein og sér mun ekki færa Finnum jafnræði á vettvangi norræns samstarfs,“ sagði Feldt-Ranta.
Juho Eerola og Maarit Feldt-Ranta segja að vissulega muni aukinn fjöldi vinnutungumála hafa aukinn kostnað í för með sér, en að lýðræði kosti peninga.
„Það kostar líka peninga að viðhalda tvítyngi í finnsku samfélagi, en við stöndum engu að síður fast á því,“ benti Eerola á.
Maarit Feldt-Ranta var á því að kostnaðarhliðin væri fyrst og fremst spurning um forgangsröðun.
„Í norrænu samstarfi skiptir miklu að halda vissri nálægð við daglegt líf almennings. Eins og er færumst við lengra frá hinum eiginlega kjarna norræns samstarfs á mörgum sviðum, og það kostar líka peninga,“ sagði Maarit Feldt-Ranta.
Um 20 prósent Norðurlandabúa tala finnsku að móðurmáli, eða nokkurn veginn jafn margir og tala dönsku.
Norðurlandaráð er vettvangur þjóðkjörinna þingmanna og jafnræðis ætti að gæta í störfum þess í þágu allra Norðurlandabúa.