Agneta Pleijel

Agneta Pleijel
Photographer
Göran Segaholm
Agneta Pleijel: Doften av en man. Skáldsaga, Norstedts, 2017

Agneta Pleijel (f. 1940) hefur fengist við flestar tegundir bókmennta sem leikskáld, ljóðskáld, bókmenntarýnir og skáldsagnahöfundur. Frægðin kom árið 1987 með skáldsögunni Jag efter vind sem byggði lauslega á ættarsögu hennar í Svíþjóð og á Jövu. Fjölskylda hennar var einnig efniviður í sagnfræðilegum þríleik – Dronningens kirurg, Kongens komediant og Søster og bror – en familiehistorie) – skáldsögum sem hún skrifaði í byrjun 21. aldar. Í Doften av en man (á íslensku „Ilmurinn af karlmanni“) sækir hún efnið í sitt eigið líf: Skáldsagan er annað bindi sjálfævisögulegrar raðar en fyrra bindið Spådomen hlaut mikið lof gagnrýnenda.

Doften av en man fjallar eins og titillinn gefur til kynna um karlmenn en mest á yfirborðinu. Í augum ungrar konu sem er á leið út á vinnumarkað og heim hinna fullorðnu eru karlmenn tæki og mælikvarði frekar en markmið í sjálfu sér. Sagan gerist í byrjun sjöunda áratugarins. Unga konan er nýflutt til Gautaborgar þar sem hún ætlar að stunda nám í bókmenntafræði við háskólann. Nýja lífið er frekar einmanalegt en aldrei leiðinlegt, hún lærir, veltir vöngum, kynnist nýju fólki og skrifar sendibréf til fjölskyldunnar heima. Það hriktir í stoðum hjónabands foreldranna, eins og sagt er frá í fyrra bindinu, Spådomen, og varpar það skugga á sjálfsmynd ungu konunnar og hugmyndir hennar um ástina. Með endalausum smáskotum og jarðbundnum ástarfundum með roggnum ungum mönnum eða góðlegum prófessorum reynir hún að ná tökum á brotinni sjálfsmynd sinni og óskinni um að vera öðrum til geðs og gera gagn. Á sama tíma vinnur hún baki brotnu og markvisst til að koma sér áfram í karllægum háskólaheiminum og síðar sem eina konan í menningarritstjórn sænska dagblaðsins Aftonbladet.

Doften av en man er feminísk þroskasaga, ástrík, margbrotin og gamansöm saga um viðleitni ungrar konu til að verða sjálfri sér nóg. Hér er á ferðinni lifandi frásögn af tímum þegar konur börðust fyrir kvenfrelsi í vinnunni og kynferðislega en máttu þola háð og spott ef þær álitu sig vera jafningja karlanna. „Ég lét eins og mér fyndist ég vera jafn mikils virði og karlarnir,“ skrifar hin eldri Agneta Pleijel um sig sjálfa sem unga. Eins gott að hún gerði það! Því annars hefðum við aldrei fengið notið hinna skörpu, hugrökku og áhrifaríku verka Agnetu Pleijel.