Ann Jäderlund

Ann Jäderlund
Photographer
Ulla Montan
Djupa, kärlek, ingen. Dikter 1992-2015. Ljóðasafn, Albert Bonniers förlag, 2016.

Djupa, kärlek, ingen er afurð yfir tuttugu ára langrar ljóðrænnar athugunar á ást og einsemd, lystisemdum holdsins, líkamlegri nautn og sársauka. Í þetta safn hefur Ann Jäderlund valið tólf ljóðasvítur, ortar á árunum 1992 til 2015, í fínlega samhangandi heild – að elska heitt er að elska engan, að elska í einlægni er að vera einn. Þetta er skáldskapur sem er í senn brothættur og sterkur, dularfullur og freistandi, sumpart hrottalegur en ávallt einstaklega fagur.

Ann Jäderlund er skáld augans, og einnig hér leika augað og sjónin lykilhlutverk. Sama má segja um vatnið, trén, ljósið, litina (einkum hvítan, lit lífs og dauða). Ljóðlist Jäderlund hefur sterkar rætur í hinum áþreifanlega heimi, og sjónin er það skilningarvit sem hún skynjar heiminn fyrst og fremst með. Ástinni er líka lýst sem sjónrænum verknaði: „Ég þekki þig ekki / en ég / sé þig.“ Í mörgum ljóðanna koma móðir og barn endurtekið fyrir, hin kraftmikla frumást sem á sér stað á því augnabliki sem þau „þenja hvort annað út“ með augunum. Slíkur er máttur augnaráðsins – það breytir öllu sem það kemst í snertingu við; það að sjá er að snerta. Sama máli gegnir að sjálfsögðu um tungumálið, sjötta skilningarvit mannsins.

Ann Jäderlund hefur alla tíð haft sérstæðan stíl, ekki síst hvað snertir hina sjónrænu hlið textans. Hún notar skáletur mikið, svo og aukið bil milli stafa í orði, ef til vill í þeim tilgangi að undirstrika séreinkenni textans sem texta. Lesandinn fær ekki að gleyma því að texti er efniviður, en afar sérstakur sem slíkur – ljóðið er torræð smíð sem verður aldrei alveg hægt að taka í sundur eða svipta dulúð sinni. Í tilfelli Jäderlund er þó um að ræða alúðlega dulúð, eða með orðum höfundar: „Hér eru orðin, farið með þau eins og þið viljið.“

Hið langa tímabil sem ljóðin í Djupa, kärlek, ingen spanna endurspeglast í breytilegum stíl og áherslum svítanna tólf. Í svítunni „Synen“ er textinn þéttur, rúmar öll möguleg og ómöguleg tilbrigði af hvítu, máluð með breiðum pensli og þungum strokum. „En Narkissosdikt“ er taktfast, dáleiðandi, hringað, „Ginstfläckar skuren is“ knappt og fágað. Í mörgum nafnlausum svítum yrkir Jäderlund dropandi tær náttúruljóð með sorgarívafi, í „Repulsion Polanski“ og „Kantele till Stina Aronson“ birtast áhrif frá kvikmyndum og bókmenntum. Ljóðasafnið í heild einkennist þó af yfirgengilegri orku sem titrar í hverju og einu ljóðanna og á uppruna sinn þar sem vonleysi mætir lífsgleði.

Ann Jäderlund kvað sér fyrst hljóðs árið 1985 með hinni brotakenndu ljóðabók Vimpelstaden. Síðan hefur hún hvað eftir annað sýnt sig og sannað sem eitt af sérstæðustu núlifandi skáldum Svíþjóðar. Auk tíu ljóðabóka og tveggja barnabóka hefur hún hlotið lof fyrir þýðingar sínar á ljóðum Emily Dickinson, sem komu út í bókinni Gång på gång är skogarna rosa (2012). Jäderlund hefur áður hlotið tilnefningu til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2010, fyrir ljóðabókina Vad hjälper det en människa om hon häller rent vatten över sig i alla sina dagar

Djupa, kärlek, ingen var tilnefnd til August-verðlaunanna árið 2016.