Annette Herzog, Katrine Clante (myndskr.) og Rasmus Bregnhøi (myndskr.)

Hjertestorm - Stormhjerte
Annette Herzog, Katrine Clante (myndskr.) og Rasmus Bregnhøi (myndskr.): Hjertestorm – Stormhjerte. Myndasaga, Høst & Søn, 2016

Höfundur lýsir á áhrifamikinn og trúverðugan hátt þeirri óvissu, eftirvæntingu og undri sem í því felst að verða fjórtán ára. Frásögnin er ýmist lágstemmd eða kímin og inniheldur allt frá einmanalegum hugsunum til gáfulegra samræðna, allt frá fálmi til markvissra aðgerða.

Bækurnar eru í raun tvær, Hjertestorm og Stormhjerte. Þær rekja ástarsögu Violu og Storm frá sjónarhorni hvors um sig og segja frá þjáningum þeirra og óvissu frammi fyrir óreiðu nýkviknaðrar ástar.

Katrine Clante og Rasmus Bregnhøi hafa myndskreytt hvort sína bókina. Þó að margt sé líkt með teikningum þeirra er greinanlegur munur á hegðun unglinganna í aðstæðunum, þar sem bæði drættir og litaval gefa (kynja)mismun til kynna. Lýsing Katrine Clante á Violu er ögn fyllri og ljóðrænni en lýsing Rasmus Bregnhøi á Storm. 

Annette Herzog hefur tekist einkar vel upp við byggingu þessara tveggja sagna, sem mætast í miðri bókinni. Með trúverðugu frásagnarlagi og óhefðbundnu uppbroti formsins, með því að vísa í bókmenntir, heimspeki og fræðandi efni og síðast en ekki síst með því að leyfa tveimur lífsreyndum fullorðnum að leggja orð í belg, tekst henni að skapa reglu í óreiðunni sem því fylgir að vera ástfanginn unglingur, fálmandi og leitandi að táknum, og veita innsýn í þann líkamlega og tilfinningalega þroska sem er undanfari þess að fullorðnast.

Bókin getur stuðlað að því að ungir lesendur finni styrk í slíku þroskaferli – ekki síst þegar þeir lesa hlutann um hitt kynið.

Og hún getur stuðlað að því að fullorðnir, sem umgangast unglinga, læri meira um þá og hvernig megi gefa þeim góð ráð.

Pabbi Storm gefur syni sínum þetta ráð þegar þeir eru að gera við hjól saman: „Reyndu að vera hugrakkur. Mesta hugrekkið felst í því að þora að vera maður sjálfur, sama hvað öðrum finnst.“

Viola hefur samtal við ömmu sína á þessa leið: „Storm kyssti aðra stelpu. Eina af þessum sætu, sem geta náð í alla strákana. Ég verð aldrei svoleiðis.“ Amman svarar: „Hvað viltu eiginlega með ALLA strákana?“

Bæði unga fólkið og hið fullorðna verður margs vísari um lífið og ástina af lestri þessara tveggja frásagna. Og það er gríðarlegur léttir þegar Viola og Storm koma þeysandi á hjólunum sínum á blaðsíðu 65, hvort úr sinni sögu, með bréf hvort til annars.

Ná þau kannski saman á endanum? Þau hafa að minnsta kosti náð til lesendanna.