Bergrún Íris Sævarsdóttir

Bergrún Íris Sævarsdóttir
Bergrún Íris Sævarsdóttir: Vinur minn, vindurinn. Roman, Töfraland, 2014.

Vinur minn, vindurinn fjallar um uppáhaldsumræðuefni Íslendinga og það sem þeir hafa mestan áhuga á: Veðrið. Bókin er ætluð yngstu börnunum. Bókin er ekki orðmörg, aðeins nokkur orð eða setningar skreyta hverja opnu og hún líkist þannig bendibókum sem fullorðnir tala um við börnin. Fullorðnir lesendur fá gott færi á að vekja athygli barnanna á hinum sífelldu veðrabrigðum og kenna þeim hvaða orð eiga við hvert afbrigði vinds og úrkomu.

Myndirnar í bókinni nota bakgrunninn til að búa til stemningu veðrabrigðanna, harða eða mjúka. Litirnir eru mildir pastellitir og teikningin í forgrunni fígúratív og einföld þó litasamsetningin sé það ekki. Á myndunum má sjá laufblöðin dansa eða fjúka – allt eftir því hvort það er vindur, gola eða logn. Grasið sveigist líka til og frá og trén sem líkjast fólki svigna í vindinum. Lesendur eru boðnir velkomnir inn í söguna og þeir beðnir um að taka eftir því hvernig veðrið hagar sér og breyta sér í veðrið, blása eins og vindurinn, öskra eins og rokið eða hvísla eins og golan. Mesta athygli vekur þó kötturinn sem er eina „persóna“ bókarinnar og fulltrúi barnsins í bókinni, mjúkur og bústinn. Hann er að finna á nær hverri opnu og ráða má af líkamstjáningu hans hvernig vindurinn blæs.

Bergrún Íris Sævarsdóttir (f. 1985), er með BA gráðu í listfræði úr Háskóla Íslands. Hún lauk einnig diplómanámi í teikningu frá Myndlistaskólanum í Reykjavík. Hún hefur myndskreytt nokkrar barnabækur og tölvuleiki. Vinur minn, vindurinn er fyrsta barnabókin sem hún vinnur ein.