Bjørn Rasmussen: Ming

Bjørn Rasmussen
Ljósmyndari
Frida Gregersen
Ljóðabók, Gyldendal, 2015

Ming er ljóð um sorg og breyskleika, skrifað á kraftmiklu máli sem hrærir lesandann.

Ming er eitthvað óbætanlegt sem getur dottið í gólfið og mölbrotnað.

Og Ming er gælunafnið sem Flemming, föður ljóðmælanda, var gefið í bernsku. Það er sá Ming sem sækir að markalausu rými bókarinnar, þar sem innri og ytri veruleiki renna saman.

Bjørn Rasmussen (f. 1983) er leikskáld, rithöfundur og ljóðskáld sem hefur verið áberandi í þeirri bylgju nýrrar danskrar ljóðlistar er einkennist af einstaklega persónulegum tóni og samfélagslegri meðvitund.

Hann steig fyrst fram á ritvöllinn árið 2011 með fallegri, átakamikilli og nýstárlegri skáldsögu, Huden er det elastiske hylster der omgiver hele legemet, sem hann fylgdi eftir árið 2013 með skáldsögunni Pynt. Ming(2015) er fyrsta ljóðabók Rasmussens.

Ming skiptist í fimm kafla, aðskilda með kolsvörtum blaðsíðum. Í köflunum verður til atburðarás sem nær frá janúar til maí og lýsir daglegu lífi ljóðmælanda, gegnsýrðu af kvíða og geðveiki, þar sem hann býr í litlum bústað með manninum sem hann ætlar að giftast. Bókin hefst á stuttu inngangsljóði sem hljóðar svo:

Jeg skriver / min døde far / frem / i min favn / og han føder / fra hænderne / en lav sol / en lille gul gummidinosaur / jeg græder / som en symaskine /  af glæde

Þessi samruni einfaldleika, súrrealisma og ákafs, líkamstengds myndmáls er dæmigerður fyrir Bjørn Rasmussen, og nýtur sín bæði í yfirburðavaldi hans á sígildum og stílrænum aðferðum á borð við það að láta setningar og setningarliði halda áfram frá einni braglínu til annarrar, og í samlíkingum sem virðast lágstemmdar en eru engu að síður afhjúpandi: Samlíking gráts við saumavél kallar fram afar sterka mynd af hinum vélræna og stingandi sársauka sem fylgir sorginni, og gleðin sem hefur framkallað tárin er runnin af sömu rótum og sú reynsla að geta aðeins hitt látinn föður sinn með því að taka ekki geðlyfin sín – sem ljóðmælandi gerir oft, sem endar með því að hann er lagður inn, og fyrir vikið verður til einstaklega næm lýsing á lífi sjúklings á geðdeild.

Ljóð Bjørns Rasmussen veita innsýn í sjaldséðan kima tilverunnar. Þau eru skrifuð úr hinum brothætta og kvalafulla veruleika geðsjúkdóms, sem jafnframt er ríkur af ást, munúð og fegurð. Þau minna okkur einnig á þau miklu og djúpstæðu áhrif sem samfélagið getur haft á einstaklinga með því að ganga út frá því sem nánast vísu að allir séu gagnkynhneigðir. Þetta eru ljóð sem deila með okkur einstakri næmni og opna huga okkar fyrir þeim styrk sem felst í mannlegum breyskleika:

jeg er et langsomt barn / jeg brænder kaffen bitter / skærer pikken åben / jeg tror litteraturen kan redde verden / er jeg dum

Nei, langar lesandann að svara ljóðmælanda. Það er allt annað en heimskulegt að skrifa ljóð sem byggja á allt öðrum veruleika en þeim sem við þekkjum frá fyrstu hendi. Þegar lífið dettur í gólfið og mölbrotnar, þegar menn geta næstum ekki drattast á lappir, farið í bað og engan veginn ferðast með almenningsvögnum, þegar menn „ligger og fryser på gulvet / som et stykke peberfrugt“, þá er ekki sjálfgefið að menn geti skrifað yfirhöfuð. En ef það er hægt og um er að ræða Bjørn Rasmussen, þá geta skrifin orðið að yfirburða ljóðrænni lífstjáningu.