Bruno K. Öijer: Och natten viskade Annabel Lee

Bruno K. Öijer
Photographer
Maya Eizin Öijer
Ljóðabók, Wahlström & Widstrand, 2014

hver var ég

kannski nafn

vegur

regn í regni

skýjahöll

sem lífið hefur flutt inn í

og grátið út

eins og barn sem

vondur draumur hitti fyrir

(„Regn í regni“ („Ett Regn I Regnet“), úr ljóðabókinni Och natten viskade Annabel Lee)

Hvað merkir það að festa sál kynslóðar á blað? Að tilheyra hræringum tímans og hins ytri heims en gera jafnframt skýlausa kröfu um heilindi og sjálfstæði? Verk ljóðskáldsins Bruno K. Öijer má lesa sem geðshræringu og hjartslátt kynslóðar, í senn óbreytanleg og stöðugum breytingum undirorpin.

Bruno K. Öijer er fæddur í Linköping árið 1951 en hefur búið í Stokkhólmi um árabil. Fyrsta útgefna verk hans var ljóðabókin Sång för anarkismen (1973) en síðan hafa komið út ellefu ljóðabækur og ein skáldsaga, auk nokkurra ljóðasafna. Hann hefur einnig gefið út hljómdiskinn Skugga kommer (á plötu 1986 og geisladiski 1999). Och natten viskade Annabel Lee (2014) er nýjasta ljóðabók hans. Öijer hefur hlotið fjölmörg verðlaun og viðurkenningar á ferlinum, meðal annars Kalleberger-styrkinn (1991), verðlaun Carls Emils Englund (1991), Bellman-verðlaunin (1999), De Nio-verðlaunin (2002), verðlaun Eriks Lindegren (2002), Dobloug-verðlaunin (2010), Aniara-verðlaunin (2012) og Ferlin-verðlaunin (2013).

Hann gat sér snemma gott orð og aflaði sér lesenda úr hópi ungra mennta- og listamanna sem sóttu í rómantík, snemmmódernisma, bandarískar bít-bókmenntir og rokktónlist.

Mikils skyldleika gætir milli verka þessa fólks og ljóðlistar Öijers. Hann hefur þó haldið sjálfstæði sínu og fest sitt eigið ljóðræna landslag í sessi, en einkennisstef þess eru bernskan, minnið og lífsskynjun sem grundvallast á sterkri meðvitund um að tilveran sé brothætt og viðkvæm. Í bókinni Och natten viskade Annabel Lee eru öll þessi stef til staðar í grípandi og sterkum myndum. Hér eru minningar um fólk, hin látnu og þau sem eru handan sjónmáls, við sjáum barnið í tvöföldu hlutverki sínu sem varnarlaus vera og glöggskyggn boðberi sannleikans, fjallað er um sársauka, ljós, myrkur, leit að sjálfi. Í löngu lokaljóði bókarinnar,  „Alla Var Där“, líða snjáðar svipmyndir úr kynslóð módernistanna gegnum Café Vieux Cimetière, þar sem Poe hvíslar æ ofan í æ sama nafnið; Annabel Lee Annabel Lee. Bókin er í senn samantekt og yfirlit yfir landslag sem mun endurfæðast: eftir hina draumkenndu nótt sem ríkir í bókinni rennur upp nýr dagur, nýr heimur.

Öijer hefur alltaf skrifað sterkan stíl. Myndmálið er átakamikið, í fyrri bókunum nánast eins og í bliksjá, í þeim seinni er það einbeittara og áherslan frekar á hversdeginum sem burðarþætti textans.

Við lestur á verkum Bruno K. Öijer er ljóst að hann hefur ávallt verið trúr sýn sinni á eldheitan skáldskap og að honum hefur tekist að þróa þessa sýn og dýpka, láta hana fylgja eigin lífsferli og jafnframt sálinni á vegferð sinni að sönnu og grípandi ljóði.