Carina Karlsson

Carina Karlsson
Photographer
Matilda Saul
Carina Karlsson: Algot. Skáldsaga, Schildts & Söderströms, 2017

Ein erfiðasta áskorun bókmenntanna er að sýna mannvonsku. Hvernig er hægt að segja frá myrkum hliðum mannlífsins án þess að svartsýnin hellist yfir? Verður ekki að vera vonarglæta í textanum til þess að hægt sé að afbera hann?

Þessar tilvistarlegu spurningar fjallar rithöfundurinn Carina Karlsson um í skáldsögunni Algot sem er framlag Álandseyja til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2018. Hún var einnig tilnefnd fyrir fyrri skáldsögu sína, Mirakelvattnet (2015), og vakti snemma athygli fyrir ljóðrænan stíl. Hún hefur gefið út tíu bækur og hlotið ýmis verðlaun, þeirra á meðal styrkinn Klockrikestipendiet til minningar um Harry Martinson.

Í efnisvali er Carina Karlsson trú sínum heimahögum. Hún hverfur aftur til sögulegra tíma og beinir sjónum að bágri stöðu einstaklinganna. Að þessu sinni er sögutíminn ófriðartímarnir á 18. öld þegar Álandseyjar eru herteknar oftar en einu sinni af rússneskum hermönnum. Íbúarnir flýja sjóleiðina og leita hælis í örygginu í Svíþjóð, mynstur sem endurspeglar stöðu flóttafólks í nútímanum. Þegar þeir snúa heim á ný þarf að endurbyggja allt samfélagið.

Algot Holm er ungur bátsmaður frá Karlskrona sem borið hefur til Álandseyja. Þar er honum úthlutað hrörleg hjáleiga nálægt Kastelholms slott í Sund. Forveri hans hvarf í stríðinu og hann tekur ekki bara við kotinu heldur einnig eiginkonunni Ilju og litlu dóttur þeirra, Gretu. Lífið er eilíft basl og vægðarlaus barátta til að bægja örbirgðinni frá. Þar sem þau ganga eftir þjóðveginum er skuggi dauðans með í för. Brennivínið er leið til að gleyma og láta sig dreyma en verður fljótlega að fíkn sem setur mark sitt á daglegt líf þeirra. Með óhugnanlegri nákvæmni er því lýst hvernig Ilja sekkur æ dýpra í áfengissýkinni þrátt fyrir að hún geri fálmkenndar tilraunir til að varðveita smá virðingarglætu.

Hugur Algots fyllist af hatri og hreinni mannvonsku. Ásamt tveimur félögum fremur hann ýmis ofbeldisverk sem ná hápunkti með hinum illræmdu morðum á Bänö í Föglö-skerjagarðinum 1748. Carina Karlsson vinnur úr heimildum og skapar blóðuga skáldsögu þar sem fyrirgefning og sættir eru ekki í sjónmáli.

Andstæðan sem kalla má tákn vonarinnar er Greta. „Ljóminn og skýin“ í augum hennar beisla jafnvel hina dýpstu mannvonsku.

Stíllinn í Algot er ýmist raunsær eða ljóðrænn. Frásögnin er byggð upp með grafískri skerpu þar sem samlíf náttúru og manna er órjúfanlegt. Persónur sögunnar kikna undan aðstæðum sínum þar sem sögulegt umhverfið er umgjörn sem við þekkjum aftur, handan rýmis og tíma.

Bókin er falleg þrátt fyrir sorgir og örvæntingu.