Carina Karlsson: Mirakelvattnet

Carina Karlsson
Photographer
Matilda Saul
Skáldsaga, Schildts & Söderströms, 2015

Frá sundinu berst klukknahljómur. Eitt sinn, þegar hörmungar steðjuðu að, var kirkjuklukkunum sökkt í vatnið svo að þær féllu ekki í hendur óvina – og þaðan af hafsbotni tala þær enn til nýrra kynslóða.

Klukkurnar sokknu gefa tóninn í Mirakelvattnet, skáldsögu eftir Carinu Karlsson, sem er framlag Álandseyja til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2016.

Karlsson er fædd 1966. Hún hefur gefið út fjölda ljóðabóka og getið sér nafn sem ein sterkasta rödd álenskra bókmennta; ljóðskáld með meitlaðan stíl, sem notar svipmyndir úr náttúrunni sem umgjörð um tilvistarleg viðfangsefni. Ljóðrænn stíll einkennir líka þetta fyrsta stóra verk hennar í óbundnu máli.

Mirakelvattnet er frásögn sem á sér djúpar rætur í álenskri sögu, á staðnum þar sem höfundurinn hefur búið alla ævi, en á þó lítið skylt við hefðbundnar þjóðlífslýsingar. Sagan gerist undir lok 19. aldar og á fyrstu áratugum hinnar tuttugustu. Aðalpersónan er Johanna, stúlka af kotbæ sem giftist Gustav, stórbónda á bænum Löfvik í Sundssókn. Hún rís úr fátækt til valda og allsnægta, en ekki er þar með sagt að hún sé sátt við sinn hlut. Johanna er flókin persóna sem flakkar stöðugt milli þess að finna til öryggis og einmanaleika. Ástkær föðurafinn, klæðskerinn í sveitinni sem kastaði henni upp í loft móti birtu himinsins, lifir í bernskuminningum hennar. Í rauntíma bókarinnar einkennist líðan hennar af uppreisnargirni, kvíða og ástleysi.

Þegar hún er ung kaupakona á bænum ber hún að hluta til ábyrgð á því að lítil telpa drukknar þegar ísinn á sundinu brestur. Myndin af dimmri vök sem opnast á hvítum fleti fylgir henni æ síðan. Lífið verður ein samfelld æfing í því að þrauka.

Myndin sem dregin er upp af Johönnu er ekki vitund fegruð. Hún er þrjósk og hörð, en ekki laus við viðkunnanlegar hliðar. Lesandinn fylgir æviskeiði hennar með dynjandi hjartslætti.

Höfundur vefur ýmsum orðatiltækjum á mállýsku inn í textann og ferst það vel úr hendi. Í lýsandi frásögninni eru einnig ljóðrænir kaflar þar sem manneskjan og landslagið renna saman í eitt í vatninu. Andrúmslofti frásagnarinnar svipar um margt til goðsagnakenndra frásagna Selmu Lagerlöf eða töfraraunsæisbókmennta.

Mirakelvattnet hefur þegar eignast dyggan hóp aðdáenda á Álandseyjum. Vinsælar gönguferðir eru farnar um söguslóðir bókarinnar, með Karlsson sjálfa sem leiðsögukonu.

Staðreyndir mæta skáldskap, ljóð og veruleiki verða sem eitt, meðan klukkurnar hringja á botni Kirkjusundsins.