Claus Beck-Nielsen

Claus Beck-Nielsen
Photographer
Morten Holtum
Claus Beck-Nielsen: Mine møder med De Danske Forfattere. Speglasalur. Skáldsaga, Gyldendal, 2013.

Claus Beck-Nielsen (fæddur 1963) sýnir fágæt tök á tungumálinu í þessari skáldsögu sinni. Hann fer í óvenjulegan leiðangur þar sem koma fyrir pínlegar aðstæður og meira eða minna skáldaðir fundir með nafngreindum rithöfundum. Í bókinni er inngangskafli þar sem höfundurinn kemur til Kaupmannahafnar og þreytir frumraun sína sem rithöfundur í tímaritinu Hvedekorn og síðan fylgja tólf kaflar sem hver um sig lýsa fundi með einum af Dönsku rithöfundunum. Sem heild gefur bókin jafnframt mynd af þrettánda rithöfundinum sem er höfundurinn sjálfur.

Það sem er athyglisvert við bókina er að hún er fyndin en þó alltaf á mörkum þess að vera alvarleg. Lýsingarnar á Dönsku rithöfundunum eru að vísu skopstælingar, en einhver sannleikur leynist í þeim öllum, í það minnsta goðsögulegur sannleikur minningar söguritarans af sjálfum sér sem ungum og hikandi. Já, fundirnir verða þegar allt kemur til alls tilvistarlegs eðlis því höfundar bókarinnar, það er að segja „ég-ið“ sem segir frá, er í stöðugri kreppu, reyndar hefðbundinni sjálfsmyndarkreppu. Hver er ég? Ég hef alla þessa möguleika, hvern þeirra á ég að velja?

Það er vitaskuld auðveldara fyrir þá lesendur sem þekkja til rithöfundanna sem fjallað er um og í besta falli hafa lesið bækur þeirra að taka afstöðu til og skilja frásagnirnar af Dönsku rithöfundunum en við erum sannfærð um að það sé hægt lesa bækur Claus Beck-Nielsens og jafnframt hafa gaman af og hrylla sig yfir hvernig fundirnir fara fram án þess að búa yfir þessari vitneskju. Allir geta sett sig inn í upplifun rithöfundarins af því að vera fyrir utan og að vilja komast innfyrir, eða einmitt að vilja það ekki. Mann langar til að forða sér, en samtímis heillast maður af persónusköpuninni.

Þrátt fyrir skipulega uppbyggingu bókarinnar einkennist hún ekki af endurtekningum, þvert á móti er fjölbreytni í því hvernig fundirnir fara fram. Dönsku rithöfundarnir eru kynntir til sögunnar með lipurlegum hætti við alls kyns aðstæður og í mismunandi hlutverkum gagnvart sögumanninum: Poul Borum, Jens Christian Grøndahl, Peter Høeg, Pia Tafdrup, Peer Hultberg, Hans Otto Jørgensen, Henrik Nordbrandt, Jørgen Leth, Christina Hesselholdt, Klaus Rifbjerg og Ib Michael. Sumir fundanna hafa enn ekki átt sér stað, aðrir fóru fram fyrir löngu síðan.

Claus Beck-Nielsen lítur upp til eins þeirra, samsamar sig öðrum, verður fyrir vonbrigðum með þann þriðja, hefur verið giftur hinum fjórða, já, og sá fimmti giftist síðan konu hans og lá kannski í rúmi hennar í Kaupmannahöfn á meðan hann lá í rúmi sama rithöfundar í Árósum. Getur það orðið pínlegra? Og fyndnara? Og samtímis verið lýst svo viðkvæmnislega fallega? Frásögnin flyst snurðulaust á milli Dönsku rithöfundanna og yfir í líf rithöfundarins sjálfs, eigin minningar um ættingja og aftur að pínlegum atburðum fortíðarinnar, í öðrum borgum, öðrum veruleikum.

Þetta er verk sem hægt er að skoða á marga vegu: Sem gamansama bókmenntasögu; sem athugun á jaðarsvæðum mannlegrar tilveru, þar sem farið er yfir þekktar sálfræðilegar markalínur, varkárni, blygðunarsemi, ótta; sem djúphyggna sjálfskönnun; sem speglasal (eins og fram kemur í undirtitlinum) fyrir höfundinn, en líka fyrir lesandann. Og þversögnin er að málfarið í þessari stjórnlausu gleði (og það er sem sagt sjaldséð!) einkennist af varkárni, blygðunarsemi og kvíða, já, það er með því nákvæmasta sem við höfum lesið á dönsku áratugum saman.

Lilian Munk Rösing, Asger Schnack