Eiríkur Ørn Norðdahl

Eiríkur Örn Norðdahl
Ljósmyndari
Johann Pall Valdimarsson
Eiríkur Örn Norðdahl: Illska. Skáldsaga, Mál og menning 2012. (Dönsk þýðing: Nanna Kalkar).

Eíríkur Örn Norðdahl er í hópi afkastamestu og fjölhæfustu rithöfunda samtímans á Íslandi. Hann er kunnur meðal unnenda framúrstefnuljóða heima fyrir og erlendis fyrir tilraunir sínar til að kanna mörk ljóðlistarinnar með myndljóðum, stafrænni ljóðlist og hljómorðaviðburðum. Hann hefur jafnframt gefið út fjórar skáldsögur, tekið virkan þátt í samfélagsumræðu og skrifað ritgerðir, kjallaragreinar og álitsgreinar, hvort tveggja í vef- og prentmiðla.  Fyrsta bók Eiríks Arnar var ljóðasafnið Heilagt stríð sem hann gaf út sjálfur í 50 eintökum árið 2001. Síðan þá eru komnar frá honum fjórar skáldsögu og fjölmargar þýðingar, hann hefur tekið þátt í ritstjórn ýmissa verka og gefið út að minnsta kosti sex ljóðasöfn. Stór hluti ljóðverka Eiríks Arnar eru þó aðeins til á Netinu eða sem viðburðir.

Fjölhæfni Eiríks Arnar sem rithöfundar nýtur sín með margvíslegum hætti í skáldsögunni sem nú er tilnefnd. Illska er mikil skáldsaga sama hvaða mælikvarði er notaður. Bókin er mikil að vöxtum, efnið spannar jafnframt breitt svið, metnaðurinn er mikill og stórar heimspekilegar og sögulegar spurningar eru teknar til umfjöllunar.  Frásagnarhátturinn er margradda og getur virst vera óskipulegur en í ljós kemur að sögumaður hefur föst tök á öllum taumum. Í grunninn er Illska söguleg skáldsaga með evrópskt sögusvið og íslensk samtímaskáldsaga en hún er líka uppfull af ljóðlist, nytjatexta (ýmist um heimspeki, sögu eða stjórnmálakenningar), textafræðilegum tilraunum og leikjum af ýmsu tagi.

Eiríkur Ørn Norðdahl er nomineret til Nordisk Råds litteraturpris 2014 for "Illska".

Tveir helstu þræðirnir í Illsku mætast í aðalsöguhetjunni, Agnesi Lukauskas. Agnes er barn lítháískra foreldra sem flytjast til Íslands löngu áður en innflytjendur frá Austur-Evrópu fóru að streyma til landsins eftir árið 2000. Hún er fædd árið 1979 og alin upp í Kópavogi. Á fullorðinsaldri verður hún gagntekin af síðari heimsstyrjöld og Helförinni. Áhugann má rekja til uppruna hennar sjálfrar. Fjölskylda hennar á rætur að rekja til smábæjarins Jubarkas. Þar bjuggu fimms þúsund manns í upphafi síðari heimsstyrjaldar, helmingurinn Gyðingar. Eftir stríð voru engir Gyðingar eftir. Forfeður hennar stóðu hvor sínum megin við þá línu sem greindi böðla frá fórnarlömbum. Langamma og langafi hennar af gyðingaættum voru drepin en frændur hennar og langafi voru í hópi þeirra sem drápu þau.

Agnes er sjálf sagnfræðingur og vinnur að ritgerð um hægriöfgamenn og popúlista í stjórnmálaflokkum í Evrópu. Hún á kærasta, málfræðinginn Ómar, en heldur framhjá honum með ólíklegasta manni sem hægt er að hugsa sér, hreinræktuðum nasista að nafni Arnór, sem er sagnfræðingur eins og hún.  Í skáldsögunni er sagt frá sögu þeirra, uppvexti á mismunandi stöðum á Íslandi, ástarævintýrum þeirra og ekki síst frá því hvernig Ómar flýr líf sitt. Þegar hann uppgötvar framhjáhald Agnesar kveikir hann í heimili þeirra, hleypst á brott og reikar um Evrópu á flótta undan sjálfum sér og afleiðingunum.

Tímabilin tvö sem sagan gerist á eru að vissu leyti spegilmyndir, en aðeins upp að vissu marki. Þrátt fyrir að illskan sé alls staðar fyrir hendi og á öllum tímaskeiðum er hún ekki einhlítt fyrirbrigði. Sú illska sem við hittum fyrir í skáldsögu Eiríks Arnar hefur mörg andlit og blæbrigði og hún fyrirfinnst í óteljandi gerðum; í sögunni, samtímanum, í athöfnum, máli og hugsunum og henni er lýst og hún verður efni til hugleiðinga, greiningar og háðungar.

Illska er mikil skáldsaga og hún beitir öllum tiltækum tæknilegum aðferðum og brögðum en hún er jafnframt hrífandi og tekur á pólitík og sagnfræði af ástríðu.

Jón Yngvi Jóhannsson