Emma Adbåge

Emma Adbåge
Photographer
Richard Gustafsson
Emma Adbåge: Naturen. Myndabók, Rabén & Sjögren, 2021. Tilnefnd til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2022.

Rökstuðningur

Í Naturen („Náttúran“, hefur ekki komið út á íslensku) eftir Emmu Adbåge fara íbúar smábæjar frá því að elska náttúruna yfir í það að ergja sig á henni. Náttúran neitar að hegða sér eins og mannfólkið vill þrátt fyrir að það rækti flauelsblóm, malbiki götur, sagi niður stóra linditréð og grilli flankasteik yfir eldi með eldiviðnum úr trénu.

 

Adbåge sýnir að hún hefur vald á einu allra erfiðasta listformi bókmenntanna, háðsádeilunni, sem fær hláturinn til að festast í hálsinum með áhrifamiklum kennslum sínum og nákvæmum tímasetningum. Um leið heldur Adbåge stöðugt í hönd barnsins sem tekur á móti verkinu, og sýnir að það er hégómleiki hinna fullorðnu og tregða þeirra til að aðlaga sig náttúrunni sem barnið getur hlegið rækilega að.

 

Dregin er upp mynd af hverri árstíð fyrir sig með algengum viðhorfum: við elskum haustið með sínum fögru haustlaufum, vetrinum fylgja skemmtilegar sleðaferðir, vorið kemur með sínum ferska andblæ og sumarið með sól og sundferðum. En hvað gerist þegar laufin verða brún, snjórinn of mikill eða þegar garðvinnan verður of erfið og sólin of heit?

 

Myndskreytingar Emmu Adbåge draga upp fullkomna mynd af fáfengilegum tilraunum mannfólksins til að temja náttúruna. Náttúran er litur, með stórum og kraftmiklum vatnslitaflötum. Hún er miðlæg á hverri opnu, ávallt nálæg en stöðugum breytingum undirorpin. Við mannfólkið verðum að láta okkur nægja að vera teiknuð ofan á náttúrumyndirnar, með smáum, fumkenndum blýantsstrikum. Adbåge vinnur með mismunandi sjónarhorn til að lýsa skekkjunni í órökréttri hegðun okkar. Við upphaf bókarinnar ríkir nokkurs konar sátt og samlyndi, sem raskast meira og meira með hverri opnu. Hlutföll hinna fullorðnu eru undarlega teygð og liðast um opnuna í ringulreið. Börnin, sem eru teiknuð á raunsærri hátt, reyna að halda í við hina fullorðnu eftir megni. Að lokum, þegar regla er aftur komin á og náttúran hefur sagt sitt, verður sjónarhornið rétt á ný.

 

Bók Adbåge má ekki aðeins lesa sem háðsádeilu, heldur einnig sem bók um loftslagsvandann og þau miklu áhrif sem hinn mannlegi þáttur hefur á hann. Þessu kemur hún ekki á framfæri með áróðursbæklingum heldur með því að rétta fram spéspegil þar sem manneskjan fær að mæta hlálegri smæð sinni andspænis styrk náttúrunnar.