Gabriella Sköldenberg

Gabriella Sköldenberg
Photographer
José Figueroa
Gabriella Sköldenberg: Trettonde sommaren. Unglingabók, Natur & Kultur, 2018. Tilnefnd til verðlauna Norðurlandaráðs fyrir barna- og unglingabókmenntir 2020.

Angelica og Sandra eru frænkur, fæddar sama dag en með árs millibili. Þær hafa alltaf verið nánar og varið sumrunum saman hjá afa sínum. Sandra er ekki bara eldri, hún er líka óstýrilát, herská og ráðrík. Angelica er auðsveip, rólynd og gerir það sem hún er beðin um. Þannig hefur það að minnsta kosti verið hingað til. Þetta sumar, þrettánda sumarið, er annað uppi á teningnum. Þegar frænkurnar hittast á ný hjá afa sínum er Sandra gjörbreytt. Hún er stillt og prúð og gerir allt sem fullorðna fólkið biður um án þess að malda í móinn. En undir yfirborðinu er ólga, og það sem í fyrstu virðist meinlaust verður smám saman að flóknum sálfræðilegum leik með hættulegum formerkjum.

Trettonde sommaren („Þrettánda sumarið“, ekki þýdd á íslensku) er fyrsta fagurbókmenntaverk rithöfundarins Gabriellu Sköldenberg. Í frásögninni er ofinn margslunginn vefur tengsla milli persónanna, allt frá fjarverandi foreldrum sem innræta börnum sínum skaðleg viðmið til valdatafls milli unglinganna í sögunni. Hún fjallar um þörfina fyrir að sjást, vera skilinn og meðtekinn; um viðkvæmni og berskjöldun; um takmörk tryggðarinnar. Hún fjallar um það að stjórna annarri manneskju og láta stjórnast, beinustu leið í átt að stórslysi.

Af kjarki og atorku hefur Gabriella Sköldenberg skrifað frásögn sem grípur lesandann og hrífur. Það gerir hún með ljóðrænni nákvæmni, blæbrigðaríkum lýsingum á umhverfi og hugmyndaríku myndmáli. Einkum er vert að nefna lýsingarnar á samskiptum frænkanna tveggja, en einnig það hvernig höfundur sáir fræjum að því sem koma skal. Meðan Sandra sveiflast milli ögrunar og fálætis, andlegs ofbeldis og þorsta eftir tengslum, getum við lesendurnir ekki annað en flett áfram, og – með sama óttablandna fögnuðinum og grípur Angelicu – einfaldlega leyft hlutunum að hafa sinn gang.