Greenlandic Greenhouse – Grænland

Greenlandic Greenhouse
Photographer
norden.org
Sjálfbært grænmeti í gróðurhúsi í Nuuk veitir aðgengi að mat úr héraði.

Greenlandic Greenhouse er tilnefnt til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2021.

Næststærsti samfelldi ísmassi heims þekur um 80% af Grænlandi og loftslag og jarðvegur á Grænlandi gerir erfitt um vik að rækta þar grænmeti. Þess vegna eru árlega flutt inn um 3.600 tonn af grænmeti til alls Grænlands en um 56.000 manns eiga heima á Grænlandi. Landafræði Grænlands gerir auk þess að verkum að þar í landi er aðeins er hægt að komast með flugi til margra bæja og byggðarlaga. Til Qaanaaq á Norður-Grænlandi kemur til dæmis aðeins skip tvisvar á ári. Flutningar með flugi leiða til þess að verð á matvöru verður hærra og kolefnissporið stærra. Flutningstíminn veldur því einnig að matvælin eru ekki lengur fersk þegar þau ná til neytendanna.

Þess vegna eru miklir möguleikar til aukinnar sjálfbærni á Grænlandi og Greenlandic Greenhouse er gott dæmi um slíka möguleika. Í Greenlandic Greenhouse eru ræktuð sjálfbær og eiturefnalaus matvæli sem eru ódýrari en aðrir valkostir sem eru fluttir langar leiðir með skipum og flugi. Í fyrirtækinu er ræktað grænmeti bæði fyrir fyrirtæki og almenna neytendur. Orkan til gróðurhússins er endurnýjanleg og kemur frá nærliggjandi vatnsaflsvirkjun en þaðan kemur einnig umframvarmi sem notaður er til upphitunar í framleiðslunni. Auk þess er meira en 90% vatnsins sem notað er í framleiðsluna endurnýtt.

Greenlandic Greenhouse er tilnefnt til Umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2021 vegna þess að þar eru framleidd staðbundin matvæli á umhverfis- og loftslagsvænan hátt og þannig stuðlað að sjálfbærara matvælakerfi á Grænlandi.

Um þema ársins: Sjálfbær matvælakerfi

Þegar matvælaframleiðsla er sjálfbær eru matvælin eins og framast er unnt framleidd staðbundið og notaðar til þess umhverfislega sjálfbærar aðferðir. Á sviði landbúnaðar er fyrst og fremst lögð áhersla á endurnýjanlega næringu úr jurtaríkinu og umhverfisvænar landbúnaðaraðferðir sem taka tillit til losunar gróðurhúsalofttegunda og kolefnisbindingar, líffræðilegrar fjölbreytni og góðrar nýtingar vatnsauðlindarinnar. Í dýrahaldi og fiskeldi er tekin umhverfisleg ábyrgð og gildi dýraverndunar tekin mjög hátíðlega. Náttúruauðlindir sem notaðar eru til matar, svo sem villtur fiskur og aðrar náttúruafurðir, eru skynsamlega nýttar.

Þegar hráefni eru ræktuð til matar er næringargildið látið halda sér eins vel og kostur er. Í matvælaiðnaðinum á sér ekki stað auðlindasóun, vörunum er pakkað á orkuvænan hátt og umhverfisáhrif dreifingarinnar eru eins lítil og mögulegt er. Fyrirtæki og verslanir bjóða viðskiptavinum sínum aðeins sjálfbæra valkosti og eru auk þess með eigin ráðstafanir til þess að draga úr matarsóun. Matur neytenda byggist á umhverfislega sjálfbærum valkostum, til dæmis grænmetisfæða sem löguð er að árstíðum. Við borðum eins margar hitaeiningar og við þurfum, enginn matur fer til spillis og lífrænn úrgangur er endurunninn.