Gro Dahle og Kaia Linnea Dahle Nyhus

Gro Dahle
Photographer
Scanpix
Gro Dahle og Kaia Linnea Dahle Nyhus (myndir): Krigen (Stríðið) Cappelen Damm 2013

Inga hefur séð myndir af stríðinu í dagblaðinu, heyrt hljóðin í sprengjunum og skotunum í sjónvarpinu. Sem betur fer býr Inga í friðsömu landi. „Meira að segja hunangsflugurnar finna til öryggis.“ En svo flytur stríðið inn í húsið, ekki stríðið sem Inga hefur séð í sjónvarpinu og í dagblaðinu, heldur annað stríð, stríð mömmu og pabba. Inga verður svo langþreytt á að vera flóttamaður milli tveggja heimila, á því bera ábyrgð á litlu bræðrum sínum, að litlu munar að allt fari á versta veg. Sem betur fer taka mamma og pabbi eftir henni nógu snemma og smám saman flytur friðurinn inn í Ingu. „Því þannig er það. Friðurinn kemur, varlega, varlega, næstum án þess að láta vita af sér, næstum án þess að nokkur taki eftir því, svo er friðurinn kominn.“

Í frásögn Gro Dahles eru börn tekin alvarlega. Höfundurinn hefur einstakan hæfileika til að sjá heiminn frá sjónarhóli barna. Hún gerir erfiðar aðstæður áþreifanlegar og raunverulegar fyrir lesandann án þess að stíllinn verði leiðinlega uppeldisfræðilegur.  Hún notar myndlíkingu stríðsins til að undirstrika alvöruna í því hversu erfið tilveran getur orðið fyrir sum börn sem lenda í aðstæðum þar sem verið er að takast á. Hægur endirinn án nokkurrar ánægjulegrar og skýrrar niðurstöðu gerir söguna sannfærandi.

Kaia Dahle Nyhus notar eigið tjáningarríkt og djarft myndmál til segja sögu Ingu. Hún hefur kosið að forðast myndlíkingar sem tengjast stríði. Myndirnar eru kraftmiklar og harkalegar, naívískar og fullar af andstæðum. Þær eru mettaðar af litum og jafnframt af tilfinningum.  Litavalið er frumlegt og dramatískt.

Beinskeyttur, lýriskur prósi Gro Dahles og stemmningsríkar myndir Kaia Dahles gera Krigen að sterkri upplifun fyrir lesandann, sem finnur mjög fyrir því að vera til staðar í stríðshrjáðu lífi stelpunnar Ingu.

Bókin er skrifuð í nánu samstarfi við tvær fjölskyldumiðstöðvar og byggir á orðum og frásögnum barna af daglegu lífi þeirra.

Gro Dahle (fædd 1962) hefur skrifað nokkrar bækur; ljóð, smásögur, skáldsögur og leikrit fyrir fullorðna og börn. Hún hefur unnið til ýmissa verðlauna, meðal annars Brage-verðlaunanna fyrir bestu barnabók ársins 2002 og barna- og unglingabókaverðlauna norska menningarmálaráðuneytisins 2004.

Kaia Linnea Dahle Nyhus (fædd 1990) er menntaður myndskreytir og hefur áður myndskreytt tvær aðrar af bókum Gro Dahles. Hún hlaut myndskreytingarverðlaun norska menningarmálaráðuneytisins 2011.

Bókin er tilnefnd til verðlauna norskra gagnrýnenda fyrir bókaárið 2013.