Guðmundur Andri Thorsson

Guðmundur Andri Thorsson
Ljósmyndari
GASSI
Og svo tjöllum við okkur í rallið. Bókin um Thor. Minningabók, JPV, 2015.

Og svo tjöllum við okkur í rallið – það er vandi að þýða titilinn – fjallar um Thor Vilhjálmsson sem var einn fremsti og framúrstefnulegasti rithöfundur Íslands á 20. öld. Thor var fæddur 1925, lést 2011, hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 1988 fyrir skáldsöguna Grámosinn glóir.

En þetta er ekki ævisaga, heldur bók þar sem er lagt út frá minningum og hughrifum. Guðmundur Andri dregur fram ljósmyndir af föður sínum, bréf og pappíra úr hirslum hans, litast um á skrifstofunni hans fullri af bókum og blöðum og það vakna alls kyns hugrenningatengsl. Sumpart er hann að reyna að gleyma ekki, að halda í minningarnar sem eru óðum að hverfa honum inn í ljósið, líkt og hann orðar það sjálfur.

Hann segist ungur hafa setið á öxlum föður síns sem var eins og „góðgjarn risi“ í þjónustu hans. En þarna vill hann tengja aftur við söknuðinn, brotthvarf þessa stóra afls úr lífi sínu. Um leið dregur hann ekki dul á að Thor gat verið erfiður maður og kröfuharður á umhverfi sitt. Hann var skapríkur, deilu- og móðgunargjarn – verk hans sem voru í anda evrópskra nútímabókmennta nutu ekki mikils skilnings. Thor var mikill Evrópumaður, dáði franska og ítalska menningu, bókmenntir og kvikmyndir, heimsborgari í landi sem var frekar þröngsýnt.

Það væri hægt að skrifa stóra ævisögu um Thor, hlutverk hans í menningarlífinu, trú hans á gildi menningarinnar, stórhug og mikillæti, deilur sem hann átti í, tilraunir hans í skáldskap – sem ekki heppnuðust allar jafn vel. En þetta er ekki sú bók. Og svo tjöllum við okkur í rallið er persónuleg bók, innileg, birtir okkur sammannlegan söknuð eftir uppruna okkar, bernskutíð – í textanum upplifum við líka þau tímamót þegar við förum að skilja að foreldrar okkar eru síður en svo fullkomnir. Guðmundur Andri skrifar um föður sinn af væntumþykju og ást, en hann hlífir honum ekki sérstaklega, segir frá göllum hans; það hefur ekki alltaf verið auðvelt að vera sonur manns sem krafðist svo mikils rýmis. Eftirminnileg er líka lýsingin á móður Guðmundar Andra, Margréti Indriðadóttur. Hún var einn helsti blaðamaður Íslands, fréttastjóri á Ríkisútvarpinu, en hlutverk hennar var líka að búa höfundinum svigrúm svo hann gæti skrifað, sjá fyrir þörfum hans, vélrita upp handrit, reka heimili. Meðfram því að vera stórgáfuð kona í fullu starfi þurfti hún að hlaða undir meinta snilligáfu eiginmanns síns.

Guðmundur Andri Thorsson er fæddur 1957. Hann er einn fremsti stílistinn á íslenska tungu. Vald hans á tungumálinu er óviðjafnanlegt, fáir geta skrifað jafn kliðmjúkan og fágaðan texta og hann. Textinn sjálfur er yfirleitt veisla, sama hvað Guðmundur Andri skrifar um. Stílsnilld hans hefur aldrei notið sín betur en í þessari bók. Hún er ekki löng, en þétt og efnismikil.

Guðmundur Andri hefur sent frá sér sjö skáldsögur, en síðasta verk hans sem kom út í fyrra var ljóðabók með hækum. Að auki hefur Guðmundur Andri ritað afar skarpar ritgerðir um bókmenntir, ritstýrt bókmenntatímaritinu TMM, en hann er ekki síst þekktur fyrir blaðagreinar sínar um samfélagsmál sem hann hefur skrifað jafnt og þétt í meira en tvo áratugi. Sem rithöfundur tekur hann virkan þátt í þjóðfélagsumræðu og hikar ekki við að taka afstöðu.