Gunnar D Hansson

Gunnar D Hansson
Photographer
Jäger Arén
Gunnar D Hansson: Tapeshavet. Ljóð, Albert Bonniers Förlag, 2017

Gunnar D Hansson er ljóðskáld, ritgerðasmiður og bókmenntafræðingur. Hann er dósent í bókmenntafræðum og hefur verið prófessor í skapandi skrifum við Gautaborgarháskóla. Þá þýðir hann úr fornensku og einnig forníslensk kvæði. Fyrsta bók hans kom út 1979 og hefur hann gefið út ritgerðasöfn og tólf ljóðasöfn. Lokaritgerð hans í bókmenntafræðum fjallaði um rithöfundinn Lars Ahlin. Hann hefur unnið til margra virtra bókmenntaverðlauna fyrir ljóð sín og ritgerðasmíð.

Lýrískur skáldskapur Gunnar D Hanssons nær yfir ýmsar tegundir bókmennta. Í ljóðabókunum hreyfir hann sig frjálslega og af mikilli bókmenntalegri og heimspekilegri þekkingu milli hins persónulega og hins almenna af kímni, hlýju og mikilli mannlegri reynslu. Verkin eiga sér engan líka í sænskri ljóðlist, hvorki frumleika né bókmenntaleg gæði.

Ljóðasöfnin fjalla í senn um samtímann og söguna, hið fornnorræna og jafnvel enn lengra aftur. Hann ólst upp í Smögen í Bohusléni á vesturströnd Svíþjóðar. Í sumum verkum, þeirra á meðal Olunn (1989), Lunnebok (1991) og Idegransöarna (1994) er yrkisefnið náttúran og dýralífið í og við hafið. Ljóðin hans, einnig í öðrum bókum, eru undir áhrifum ritgerðarinnar en jafnfram ákaflega ljóðræn, full fróðleiks og lífsþroska. Skáldið hefur einstakt lag á að segja samtímis frá ytra efni ljóðsins og breyta því að hætti gullgerðarmannsins í allt annað sem er meira tilvistarlegs eðlis.

Tapeshafið er nafnið á strandlengju til forna sem myndaðist eftir seinni ísöld á vesturströnd Svíþjóðar. Á steinöld breiddi hafið úr sér á allt annan hátt en áður en til vitnis um það eru ótal vistleifar og dýraleifar.

Bók Gunnars D Hanssons Tapeshavet (á íslensku „Tapeshafið“) er margvíddarferðalag gegnum tíma, rúm og huga. Hann kannar slóðir Tapeshafsins, sögu þess og náttúru, leifar horfinna menningarheima, fiskveiða, steinhöggsins. Í bókinni bregður hann upp mynd af sjálfstæðu, einstöku og hrífandi landslagi og verður að afar persónulegri landafræði- og svæðislýsingu. Bókin er lífssaga, átthagasaga, bókmenntaleg ritgerð, ljóðlist og innsýn í tilurð ljóðsins, sjálfsævisaga og menningarsaga. Bókin ber vott um að Gunnar D Hanson er vel lesinn og býr yfir mikilli frásagnargleði.

Og þarna rúmumst við líka og okkar samtíð, við sjáum að allt er til í öllu.