Gunnar Helgason oog Rán Flygenring
Rökstuðningur
Hispurslaust en með næmu innsæi og kímni dregur Gunnar Helgason upp sannfærandi mynd af sögupersónunni Alexander Daníel Hermanni Dawidsson í Bannað að eyðileggja. Alexander upplifir heiminn á alveg einstakan hátt sem hefur bæði neikvæð og jákvæð áhrif á alla hans tilvist. En eitt er alveg skýrt frá upphafi: Við erum með Alexander í liði og í því liggur styrkur bókarinnar. Samkenndin með honum er rík og það er sárt þegar Alexander og heimurinn rekast saman.
Sterkur þráður í bókinni er sú mikilvæga hugsun að mæta öllum, stórum og smáum, þar sem þau standa. Allir eiga virðingu skilið og flest göngum við í gegnum alls konar erfiðleika sem hafa flókin áhrif á daglegt líf okkar. Lesandinn lifir sig inn í átök Alexanders við sjálfan sig og aðra. Af einhverjum ástæðum á hann erfitt með að mynda vinatengsl sem endast. Ástæðan er líklega ADHD. Auk þess eiga þeir rétt á að láta flytja eigin gögn. Undirliggjandi er líka stór sorg, mamma Alexanders er farin og lengst af sögunni vitum við ekki hvað varð af henni. Sorgin er óuppgerð og það er gefið sterkt til kynna að pabbi hans sé líka sorgmæddur og óviss um hvernig hann á að hjálpa syni sínum að takast á við lífið og dauðann.
Gunnar Helgason heldur meistaralega um taumana þar sem hann lætur taktinn í frásögninni elta líðan Alexanders og gefur lesandanum innsýn í hvað ADHD ræður þar miklu. Hraðinn eykst þegar Alexander missir tökin á dagsplaninu sínu og nær ekki að fylgja stressandi skipulagi og öllum vekjaraklukkunum sem hringja til að minna á fótboltaæfingar og fatnað, uppþvottavélar og heimalestur, skólatösku og úlpu. Hringekjan snarstoppar síðan þegar hann kemur auga á kött og gleymir öllu öðru. Þá róast frásögnin en spennan helst því lesandinn veit vel að skipulagið er um það bil að fara út af sporinu.
Myndhöfundur bókarinnar er Rán Flygenring. Kröftugar og allt að því iðandi pennateikningarnar lýsa innra sjónarhorni Alexanders og hvernig hann tekst á við ofvirka tilveru sína. Stundum er kaótík allsráðandi á myndfletinum, annars staðar kemst bara eitt fyrir þegar eitthvað heltekur Alexander. Rétt eins og texti bókarinnar eru teikningarnar fullar af hugarflugi, húmor og virðingu fyrir viðfangsefninu.
Það sem gerir Bannað að eyðileggja að áhugaverðu og mjög þörfu innleggi í íslenska barnabókaflóru er að nær allar persónurnar sem drífa söguna áfram eru innflytjendur, af fyrstu, annarri eða þriðju kynslóð. Faðir Alexanders er pólskur verkamaður og vinkona Alexanders, Sóley Pakpao, á taílenska móður. Alexander og Sóley deila reynsluheimi barna innflytjenda sem þurfa að fylgja ættingjum í læknisheimsóknir til að túlka fyrir þá. Að aðalpersónurnar tilheyri minnihlutahóp innflytjenda er ekki aðalatriði í sögunni. Það er engin áhersla á þjóðerni og höfundur velur að tala aldrei sérstaklega um Íslendinga, svo lesandinn upplifir aldrei öðrun á aðalpersónunum, út frá þjóðerni. Pólitík, mannréttindi og sammannleg sorg liggja undir söguþræðinum, en frásögnin er bráðfyndin og hversdagsleg atriði eins og unglingaást, heimalærdómur og vandræðalegir foreldrar undirstrika það sem við eigum sameiginlegt, sem er alltaf á endanum mikilvægara en það sem skilur okkur að.
Gunnar Helgason (f. 1965) er leikari, leikstjóri, dagskrárgerðarmaður fyrir sjónvarp og rithöfundur sem skrifað hefur fjöldann allan af vinsælum barnabókum sem hlotið hafa ýmis verðlaun. Gunnar var tilnefndur til Astrid Lindgren verðlaunanna árið 2022. Rán Flygenring (f. 1987) er sjálfstætt starfandi mynd- og rithöfundur, listamaður og hönnuður. Hún hefur gefið út á annan tug bóka og hafa þær verið þýddar á fjölda tungumála. Rán hefur hlotið ýmis verðlaun og viðurkenningar fyrir verk sín.