Handhafi náttúru- og umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2015

Vinder af Nordisk Råds natur- og miljøpris 2015
Photographer
Johannes Jansson/norden.org
Færeyska orkufyrirtækið SEV hlýtur náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2015

Um verðlaunahafann

Orkufyrirtækið SEV er stærsti orkuframleiðandi í Færeyjum. SEV notar bæði vind- og vatnsorku og sér þannig til þess að 51% orkuþarfar í Færeyjum sé fullnægt með sjálfbærri orku.

Rökstuðningur dómnefndar

Færeyska orkufyrirtækið SEV hlýtur verðlaunin fyrir nýskapandi starf að metnaðarfullum markmiðum um græna raforku í Færeyjum. Starfsemin er þýðingarmikil fyrir innleiðingu endurnýjanlegra orkukerfa í Færeyjum, en einnig fyrir evrópskan orkumarkað.

Í ársbyrjun 2016 verður nýtt orkugeymslukerfi tekið til notkunar í Færeyjum sem er hið fyrsta sinnar tegundar í Evrópu, auk nýs orkustýringarkerfis. Þar með verða Færeyjar vettvangur tilraunastarfsemi fyrir þau úrlausnarefni sem Evrópa stendur frammi fyrir.

Raforkudreifikerfi Færeyja er tiltölulega lítið og einangrað, án tengingar við dreifikerfi annars staðar í Evrópu. Því felst mikil áskorun í því að auka hlutdeild grænnar orku í kerfinu, þar sem aðdrættir úr endurnýjanlegum orkugjöfum getur verið mismiklir og því kann að skapast óstöðugleiki í hinu litla kerfi.

Þetta hefur þó ekki aftrað SEV, fyrirtæki í eigu færeysku sveitarfélaganna, frá því að setja sér það markmið að allri orkuþörf Færeyja skuli verða fullnægt með endurnýjanlegri orku frá árinu 2030. Á undanförnum árum hefur SEV stutt aukna hlutdeild vindorku í færeyska raforkudreifikerfinu og því væntir fyrirtækið þess að hlutur raforkuframleiðslu frá endurnýjanlegum orkugjöfum verði að lágmarki 56% allrar framleiðslu á árinu 2015.

Til að mæta þessari áskorun og beina enn meiri vindorku inn á raforkudreifikerfið hefur SEV, í samstarfi við alþjóðleg fyrirtæki, ýtt úr vör byltingarkenndu þróunarverkefni með hnattrænt sjónarhorn, sem er liður í þeirri viðleitni að hætta alfarið notkun jarðefnaeldsneytis í heiminum.

Í ársbyrjun 2016 verður nýtt orkugeymslukerfi tekið til notkunar í Færeyjum sem er hið fyrsta sinnar tegundar í Evrópu, auk nýs orkustýringarkerfis. Orkugeymslukerfið, sem er nú verið að prufukeyra í Þýskalandi, mun efla stöðugleika raforkudreifikerfisins og draga úr tíðnisveiflum. Með nýja orkustýringarkerfinu, sem veitir sjálfbærum orkugjöfum sjálfkrafa forgang innan raforkudreifikerfisins, verður mögulegt að nýta vindmyllurnar til fulls og auka hlutdeild sjálfbærrar orku á færeyska raforkudreifikerfinu.

SEV og alþjóðlegir samstarfsaðilar fyrirtækisins telja sig hafa fundið hentuga lausn fyrir hið einangraða raforkudreifikerfa Færeyja, sem hafi einnig ótvíræða hnattræna vídd. Því verða ný kerfi til orkugeymslu og orkustýringar innréttuð með fyrirlestrarrýmum, en þess er vænst að erlendir aðilar sýni kerfunum mikinn áhuga.

Vegna mikils metnaðar síns og skapandi aðgerða til að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis er SEV verðugur handhafi náttúru- og umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2015.

Verðlaunin hlýtur fyrirtæki, samtök eða einstaklingur sem sett hefur fordæmi með þróun vöru eða uppfinningar eða öðrum skapandi aðgerðum sem stuðla að minni losun gróðurhúsalofttegunda á Norðurlöndum til frambúðar.