Jacob Anderskov

Jacob Anderskov
Photographer
Mike Højgaard
Tilnefndur fyrir verkið „Resonance”

Sagt hefur verið um tónskáldið, píanóleikarann og hljómsveitarstjórann Jacob Anderskov að hann sé í hópi „the most extraordinary artists of contemporary music“ (Jazz Podium, Þýskalandi, maí 2010). Hann hefur hlotið fjölda viðurkenninga, meðal annars Danish Music Awards Jazz árið 2013 sem djasstónskáld ársins í Danmörku.

Tónskáldið og píanistinn er síleitandi. Í verkinu Resonance frá árinu 2016 (átta þættir fyrir þrjú strokhljóðfæri, slagverk og píanó) fléttar hann fagurfræðilegar kenningar saman við hefðir og skynjun tónlistarinnar. Flytjendur fá frjálsar hendur til að skapa þeirra eigin hljóm og hendingar. Áferð og hljómblær sem strokhljóðfæraleikararnir skapa verða óaðskiljanlegur hluti tónlistarinnar. Þaulsamdir kaflar strokhljóðfæranna togast á við opinn spuna píanós og slagverks og útkoman verður vel heppnuð blanda samtímalegrar tjáningar og ljóðrænnar nálgunar.

Á meðan á upptökum verksins stóð lést tónskáldið og tónlistarmaðurinn Ornette Coleman en hann hafði verið ein helsta fyrirmynd Jakobs Anderskovs. Fyrsti þáttur verksins er túlkun á What reason could I give eftir Coleman.

Tærleiki verksins og lipur leikur að fagurfræðinni í verkinu sjálfu og flutningi þess bera vitni um skýra og yfirvegaða listsköpun tónskálds sem er í fremstu röð meðal samtíðarfólks síns.