Jens Mattsson og Jenny Lucander (myndskr.)

Jens Mattsson & Jenny Lucander
Photographer
Jose Figueroa & Niklas Sandström
Jens Mattsson og Jenny Lucander (myndskr.): Vi är Lajon! Myndabók, Förlaget M, 2019. Tilnefnd til verðlauna Norðurlandaráðs fyrir barna- og unglingabókmenntir 2020.

Tveir bræður eru á veiðum úti á hitabeltisgresjunni. Þeir eru hættuleg „læón“ sem laumast alveg hljóðlega svo að gasellumamman og gnýpabbinn verði einskis vör. Inni á milli liggja þeir bara í leti á læónahæðinni. En þögn slær á í neðri kojunni þegar stóri bróðir veikist og megnar bara að öskra veikt. Gegnum sameiginlegan leikjaheim tveggja bræðra í myndabókinni Vi är Lajon! („Við erum læón!“, ekki þýdd á íslensku) lýsa Jens Mattsson og Jenny Lucander því hvernig litli bróðir berst við að skilja að alvarlegur sjúkdómur (lesist: krabbamein) hafi læst klónum í bróður hans. Leikurinn er huggun í erfiðum aðstæðum: „Ég fæ að klifra yfir rimlana og koma upp í. Mamma og pabbi halda hvort í sinn þófann. Ég geri klær með puttunum í átt að handlegg bróður míns og urra. Við erum læón, hvíslar hann. Ég kinka kolli. Brátt förum við aftur á veiðar.“ Læón vilja ekki sitja föst með slöngur og æðaleggi í sér, þau fara á veiðar á spítalagöngunum þar sem bráð þeirra er sebrafrú með göngugrind og flóðhestastrákur í spítalanáttfötum: „Svo náum við flóðhestastráki í náttfötum með umbúðir á höfðinu. Hann skrækir óttasleginn þegar við hefjum upp læónaöskrið og rífum hann í tætlur. Flóðhestar eru góðir, þeir kunna að hræðast almennilega.“ Umfjöllunarefni bókarinnar er eins erfitt og það getur orðið; barn sem veikist og deyr. Frásögnin lýsir á bæði kíminn og hjartnæman hátt í ýmist skærappelsínugulum eða lillabláum tónum þeim lækningamætti sem leikur getur haft. Lucander hefur auðþekkjanlegan stíl, gerir ýmsar tilraunir með sjónarhorn og hittir ávallt í mark í persónulýsingum. Texti Mattssons er viðkvæmur, margbreytilegur og kraftmikill: „Mamma skelfur eins og henni sé ískalt. Pabbi raðar blómunum þó að það sé þegar búið að stilla þeim fínt upp.“ Textinn er yfirvegaður og skilur nóg pláss eftir fyrir myndskreytingarnar til að lýsa því hvernig sjúkdómurinn endurskrifar ættartré fjölskyldunnar. Frásögnin í fyrstu persónu setur leikjaheim barnsins í forgrunn meðan myndirnar sýna angist hinna fullorðnu sem annast deyjandi barn. Bókin tekur skýra afstöðu með barninu og ver rétt þess til að leika sér. Sögulokin eru ekki fegruð, en á allra öftustu síðunni er áhrifarík mynd af tveimur læónum sem geta nú leikið sér saman á ný – hrífandi lýsing á bróðurást sem minnir á nýtt Nangijala. Í myndinni býr huggun. Bókin er prentuð í langsniði sem gefur aukið rými til læónaleiks á ímynduðum gresjum og spítalagöngum; hreyfingu og spennu auk íhugulla hvíldarstunda. Mitt í sorg atburðarásarinnar leynist von. Jafnvel það erfiðasta af öllu er hægt að lita með skærappelsínugulum lit.

Bókin var gefin út af finnlandssænska forlaginu Förlaget, sem er þekkt fyrir útgáfu sígildra myndabóka af miklum listrænum gæðum. Hún hefur nú einnig komið út hjá Natur & Kultur í Svíþjóð. Þetta er fyrirtaks dæmi um norrænt samstarf í útgáfu myndabóka.

Jens Mattsson er sænskur ritstjóri barnabóka og barnabókasafnsfræðingur í Lundi. Vi är Lajon! er hans fyrsta bók. Jenny Lucander er finnlandssænskur myndskreytir, búsett í Helsingfors. Í febrúar 2019 hlaut Vi är Lajon! hin virtu verðlaun sænska bókmenntafélagsins í Finnlandi (Svenska litteratursällskapet i Finland). Myndabókin Vildare, värre, Smilodon eftir Lucander og Minnu Lindeberg var tilnefnd til Runeberg Junior-verðlauna í Finnlandi, verðlauna Norðurlandaráðs fyrir barna- og unglingabókmenntir og hinna finnsku Rudolf Koivu-verðlauna fyrir fegurstu myndabók, allt árið 2017. Þá var bókin Dröm om drakar eftir Lucander og Sönnu Tahvanainen tilnefnd til verðlauna Norðurlandaráðs fyrir barna- og unglingabókmenntir 2016.

Athugið að Vi är Lajon! kom upphaflega út hjá sænska forlaginu Natur & Kultur.