Jesper Wung-Sung & Rasmus Meisler (myndskr.)

Lynkineser
Jesper Wung-Sung & Rasmus Meisler (myndskr.): Lynkineser. Endurminningar, Dansklærerforeningen, 2017

Titill bókarinnar er sóttur í ummæli blaðamanns þegar Jesper Wung-Sung gaf út sína fyrstu bók árið 1998. Sá líkti höfundi við kínverja, litla hvellhettu sem lítið púður væri í. Þrátt fyrir þau orð hefur Jesper Wung-Sung skrifað fjölda bóka í ýmsum greinum bókmenntanna. Hann er einn víðlesnasti höfundur Danmerkur og hefur unnið til margra verðlauna, nú síðast verðlauna bóksala, Gyldne Laurbær, árið 2018 fyrir skáldsöguna En anden gren sem hann samdi fyrir fullorðna,

Lynkineser leiðir einnig hugann að hvellhettum sem óknyttastrákar laumuðu í fléttu langafa hans þar sem hann var á gangi í Kaupmannahöfn. Langafinn var fluttur inn frá Kína til sýnis í Tívolí þar sem hann hitti sönnu ástina hana Ingeborg. Hún varð að gefa frá sér danska ríkisfangið sitt þegar hún gekk að eiga Kínverja.

Þessi ótrúlega frásögn er byrjunin á endurminningum Jespers Wung-Sung. Lesandinn skynjar persónuleika hans vel þegar hann opnar bókina og virðir myndskreytingarnar fyrir sér. Ljósmyndir úr myndaalbúmi höfundar hafa verið klipptar og skornar á þann hátt að þær seiða lesandann inn í bókina um leið og þær setja fjarlægð á einkalífið.

Frásögnin verður aldrei niðrandi en tilvistarlegar spurningar leita á lesandann þegar höfundur tekst á við lífið en einnig þegar vísað er í t.a.m. Franz Kafka, H.C. Andersen, Johann Wolfgang Goethe, Pete Seeger og hetjusögurnar frá Alamo. Hvar er að finna jafnvægið á milli þess að vera frjáls einstaklingur og hluti af hópnum?

Um þetta er fjallað á snilldarlegan hátt í stuttum köflum. Hrollur sækir að okkur þegar drengurinn er settur upp í gulan skólavagn í Houston Texas án þess að kunna orð í máli innfæddra. Við finnum fyrir söknuði þegar hann sér smábýli ömmu hans og afa orðið að sumarbústað einhvers fólks sem hefur látið fella gamla perutréð. Manst þú hvernig perur eru á bragðið? Við heyrum óm fortíðarinnar þegar hann lætur strákana góla hæðnislega um leið og þeir sparka hver í annan. Og hann fær hjörtu okkar til að slá hraðar þegar menntskælingurinn ber fram nafn stelpunnar sem hann er skotinn í: Christina Bausager Jensen.

Bókin leiðir danska lesendur inn á slóð margra og fjölbreyttra verka þekkts höfundar. Lesendum gefst tækifæri á að skyggnast inn í undursamlega, ljóðræna og taugatrekkjandi frásögn af lífi sem líkist lífi annarra en er samt allt öðru vísi. Einfarinn og hið sameiginlega fléttast saman við lesturinn.

Myndskreytir bókarinnar leikur sér listilega að dagbókum og útklippubókum rétt eins og höfundur leikur sér að formi endurminninga: Hvað er satt og hvað er skáldskapur? Ungur aldur lesenda gleymist ekki en það reynir á skilning þeirra. 

Nú ætti öllum að vera ljóst að titill bókarinnar er villandi. Hún er engin hvellhetta heldur glæsileg flugeldasýning!