Juha Itkonen

Juha Itkonen
Photographer
Laura Malmivaara
Juha Itkonen: Ihmettä kaikki. Skáldsaga, Otava 2018. Tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2020.

Rökstuðningur:

Mitt í hversdagsleikanum skellur skyndileg sálarkreppa á hamingjusömum eiginmanni sem á von á þriðja barninu með eiginkonu sinni. Þegar meðgangan er nærri hálfnuð er velferð fóstursins skyndilega ógnað og hjónin standa frammi fyrir ómögulegu vali. Þetta hörmulega ástand kemur sambandinu úr jafnvægi og hrikta tekur í stoðum sem áður virtust traustar. Öryggi hversdagsins hefur vikið fyrir ógn. Hjónin verða að láta sér nægja „mikla óvissu og litla von“. 

Ihmettä kaikki (Allt ett under, væntanleg í sænskri þýðingu Camillu Frostell hjá Förlaget M í september 2020) er sláandi innileg og átakamikil lýsing fjölskylduföður á langvinnu neyðarástandi, óþolandi óvissu sem reynir bæði á ástina og hinar brothættu og sterku hliðar lífsins sjálfs.  Frásögnin, sem hefst á litlu, ófæddu barni, dýpkar í meðförum Itkonens og verður að áhrifamikilli innri íhugun um hamingju og sorg, ástina og foreldrahlutverkið, trúna og mögulega tilveru Guðs, von og það að lifa af – allar helstu vangaveltur manneskjunnar öðlast hér raunverulegt vægi; snarpar, sársaukafullar og í návígi.

Samskipti eru sterkt þema í verkinu, bæði kúnstin að viðhalda samskiptum og hættan á að tapa þeim niður. Hinar erfiðu aðstæður skapa gjá milli hjónanna, því þó að þau deili sorginni og sársaukanum er upplifun hvors um sig afar persónuleg. Itkonen lýsir af lipurð sjónarhorni eiginmannsins og því að standa öðrum megin gjárinnar, langt í burtu frá maka sínum. Af hjartnæmri þrjósku reynir sögumaður jafnvel á erfiðustu stundunum að halda samskiptarásinni opinni; reynir að tengjast með orðum, snertingu, bréfaskrifum. „Ég er ekki óvinur þinn, ég er maðurinn þinn.“ Þegar orkan fer þverrandi og Rose virðist ætla að sökkva niður í eigin örþreytta veruleika sækir eiginmaðurinn styrk í hlutverk stuðningsaðila sem knýr hversdaginn áfram. Sér Rose að gríðarstór sorg í mannsmynd liggur ofan á mér og ég orka ekki að ýta henni burt? Ég vil ekki að hún sjái það. Hún má ekki sjá það. Ég má ekki vera sorgmæddari en hún.“

Skáldsagan er í tveimur hlutum og endar sá fyrri með sorg, gufuböðum og hlýju heimilisins. Atburðirnir hafa markað hjónin: „Ég veit ekki hvort ég þori nokkurn tíma að fara héðan aftur.“ Í seinni hluta skáldsögunnar heldur hinn sársaukafulli rússíbani áfram. Í nýju neyðarástandi, með nýju lífi sem enn virðist svo brothætt, reyna hjónin að þrauka og sameina fjölskyldulífið dvölinni á vökudeild spítalans. Smátt og smátt lætur varfærnisleg von þó á sér kræla. Undur eiga sér stað. Við bókarlok er sögusviðið enn hversdagsleikinn, en ró hefur komist á að fenginni þeirri mótsagnakenndu en huggunarríku vissu að „manneskjan er alltaf í hættu stödd“. Út úr óþolandi óvissu má finna leið að þolanlegri óvissu, það þarf að finna hana, öðruvísi er ekki hægt að lifa.

Í nánd við lífið og dauðann er mannskepnan hvað viðkvæmust: þoka og heiðríkja verða samtímis allsráðandi. Þangað beinir Itkonen lesendum sínum – af hugrekki og einurð, gegnum hið erfiða, sára og ótrygga. Hæfileikar höfundarins koma skýrt fram í því hve vel honum tekst að flétta glöggar og skarpar athuganir saman við einstaklega hjartnæma og innilega frásögn. Útkoman er þessi skáldsaga sem er sláandi næm í allri sinni dirfsku. 

Juha Itkonen (s. 1975) vakti athygli fyrir fyrstu skáldsögu sína, Myöhempien aikojen pyhiä, sem kom út árið 2003. Síðan hefur hann gefið út fjölda skáldsagna og hlaut bókmenntaverðlaun finnska ríkisins árið 2005 fyrir bókina Anna minun rakastaa enemmän. Einnig hefur Itkonen hlotið Kalevi Jäntti-verðlaunin og verið tilnefndur til Runeberg-verðlaunanna og Finlandia-verðlaunanna. Auk skáldsagna hefur Itkonen skrifað smásagnabók, tvö leikrit og barnabók. Síðustu ár hefur hann gefið út ferðabókina Minun Amerikkani (2017), Ihmettä kaikki (2018) og 7 + 7: levottoman ajan kirjeitä (2019), sem hann skrifaði ásamt Kjell Westö.