Karen Anne Buljo
Šiellaspeajal („Verndargripaspegillinn“) er ljóðabók handa börnum, skrifuð á norður-samísku af Karen Anne Buljo.
Bókin er vegvísir handa ungu fólki um hinn auðuga táknheim samískrar sagnahefðar og samíska heimsmynd eins og hún hefur gengið í erfðir milli kynslóða.
Titill bókarinnar, Šiellaspeajal, vísar í mikilvæg gildi sem forfeðurnir hafa látið eftir sig, komandi kynslóðum til verndar. Ljóðin veita innsýn í táknheim samískrar menningar, joik-söng, sagnahefð og náið samband mannsins við náttúruna.
Með ljóðunum vill skáldið sýna hvernig þessi arfur getur veitt ungu fólki styrk á umbrotatímum. Ljóðin fjalla um tilvistarlegar spurningar, um það að vera barn, ungmenni, foreldri, afi og amma. Um uppvöxt þar sem hið dulræna er hluti af daglegu lífi. Um það að alast upp í samísku umhverfi þar sem fólkið óttast að tapa tungumáli sínu og tilverurétti í framtíðinni. Þannig er tilvera samískra ungmenna í dag og mörg þeirra eru í leit að sinni eigin samísku sjálfsmynd.
Sögur í munnlegri geymd eru mikilvægur hluti af samískum veruleika enn þann dag í dag. Höfundurinn nýtir sér með einstökum hætti þá möguleika sem búa í tungumáli og frásagnarhefð Sama til að ræða málefni sem eru mikilvæg ungu fólki, svo sem ást, söknuð, vonbrigði og sorg.
Bókin hefur mikla sérstöðu hvað snertir málskilning höfundar og hrynjandina í ljóðunum. Því hefur tilnefningarnefndin ákveðið að hún verði framlag samíska málsvæðisins til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2019.