Karin Erlandsson

Karin Erlandsson
Ljósmyndari
Juha Törmälä
Karin Erlandsson: Segraren. Unglingabók, Schildts & Söderströms, 2019. Tilnefnd til verðlauna Norðurlandaráðs fyrir barna- og unglingabókmenntir 2020.

Það glitrar á perlur í öllum regnbogans litum í perlugötu drottningar þegar Miranda er flutt inn í borg hennar sem fangi í gullbúri. Þar fær hún að líta öðru sinni þær þúsundir perla sem hún hefur sjálf veitt upp úr hafinu handa drottningunni. Enn leitar hún þó augasteinsins, stærstu og goðsagnakenndustu perlunnar, en sagan segir að sá sem hana finni þurfi aldrei að sakna neins framar. Miranda hefur loksins skilið að tortíma þarf perlunni, því þau sem verða heltekin löngun í hana missa alla stjórn á eigin lífi og yfirgefa jafnvel sín eigin börn. Meðan réttað er yfir Miröndu hittir hún aftur ýmsar persónur sem hún hefur kynnst á ferðum sínum. Einnig kynnist hún loks sjálfri drottningunni, fær að sjá fiskabúr hennar og útskornu tréfígúrurnar. Iberis, systir drottningar, tekur ekki í mál að hætta leitinni að augasteininum en drottningin áttar sig að lokum: „Það er fagurt að þrá, en það á að þrá hluti saman – ekki einsamall.“

Segraren („Sigurvegarinn“, ekki þýdd á íslensku) er fjórði og síðasti hlutinn í bókaflokki Karinar Erlandsson, Legenden om Ögonstenen („Goðsögnin um augasteininn“). Höfundurinn hefur skapað einstaka sögu fyrir börn þar sem nánast allar persónur eru kvenkyns. Við byggingu söguheimsins hefur Erlandsson nýtt sér sígild andstæðupör. Land mætir hafi, eiginleikar fjalla eru bornir saman við tré, hvítt myndar andstæðu við svart og hefðbundinni þekkingu hinna fullorðnu er stillt upp andspænis nýrri hugsun og reynsluheimi barnanna. Lesandinn fær að ganga undir himni með nýjum, spennandi stjörnumerkjum og finna höfugan ilm af kanilkastaníum með smjöri, grilluðum dvergdúdúfuglum og hunangssíld. Aðalpersónan Miranda og förunautur hennar Syrsa hafa báðar misst handlegg við perluveiðarnar en láta fötlunina þó ekki stöðva sig í ævintýrunum. Höfundurinn leggur áherslu á að öll séum við ólík en jafnframt nauðsynleg og ættum að nýta og þróa okkar sérstöku hæfileika.

Þrá eða fíkn er stefið sem knýr frásögnina áfram. Sagan er afar myrk á köflum; segir frá foreldrum sem yfirgefa börn sín og gleyma þeim vegna löngunar sinnar í augasteininn. Lesandinn getur ekki annað en vonast eftir sáttum við foreldrana, en þau koma aldrei. Þess í stað fá börnin að axla ábyrgð á því að koma veröldinni á réttan kjöl í sönnum anda Gretu Thunberg. Þetta er nútímaleg sama, grimmileg á köflum og undir áhrifum frá mörgum helstu höfundum bókmenntasögunnar, svo sem Astrid Lindgren og J.R.R. Tolkien. Myndskreytingar eftir Sami Saramäki, ríkar að smáatriðum, prýða hlífðarkápu bókarinnar.