Karin Erlandsson: Minkriket

Karin Erlandsson
Photographer
Emilia Bergmark-Jiménez
Skáldsaga, Schildts & Söderströms, 2014.

Það er ólykt af minkum, en líka peningalykt.

Hvernig má finna jafnvægi milli nagandi ónotakenndar og draumóra um efnahagslegt öryggi? Þetta er til umfjöllunar í skáldsögunni Minkriket eftir Karin Erlandsson, sem er framlag Álandseyja til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2015.

Erlandsson (f. 1978) starfar sem menningarritstjóri dagblaðsins Nya Åland í Maríuhöfn. Sögusvið þessarar fyrstu skáldsögu hennar, sem hlotið hefur mikið lof gagnrýnenda, er á heimaslóðum höfundar í nágrenni smábæjarins Nykarleby í Austurbotni í Finnlandi.

Á yfirborðinu er Minkriket raunsæ frásögn af þróun minkaræktar sem vaxið hefur fiskur um hrygg sem mikilvægri búgrein í dreifbýli Austurbotnsins á undanförnum tveimur áratugum. Samfara vaxandi eftirspurn eftir loðfeldum upplifa minkabændurnir efnahagslega velsæld af áður óþekktum toga. Þeir standa þó varnarlausir gagnvart óhagstæðum hagsveiflum. Aðgerðir umhverfisverndarsinna, einkum öfgahóps sem kallar sig „refastelpurnar“, beinast í auknum mæli að því sem margir sjá sem illa meðferð á dýrum. Þannig verður minkaræktin siðferðilegt álitamál.

Frásögnin hverfist um fjölskyldu sem byggir afkomu sína á loðdýrarækt. Fjölskyldufaðirinn Evert fjárfestir af þrótti og sonur hans, Lars-Erik, ávaxtar pundið eftir bestu getu. En eru líkur til þess að næsta kynslóð muni taka við rekstrinum?

Togstreita er áberandi innan fjölskyldunnar. Kristina, eiginkona Lars-Eriks, venst aldrei sterkum minkafnyknum né heldur því hvernig dagleg störf á búinu stjórna tilverunni. Hún er bitur vegna brostinna vona en Tanja, dóttir hjónanna, rís upp gegn venjum hins litla samfélags.

Hér er á ferðinni vel skrifuð og haganlega uppbyggð skáldsaga. Hún er full af lykt, hugboðum og væntingum sem stillt er upp gegn samfélagslegum kröfum. Þó að sögusviðið sé á landsbyggðinni vottar ekki fyrir sveitarómantík. Í samtölum brýst hrjúf kímni oftar en ekki upp úr alvarlegu yfirborðinu, líkt og framinn sé seiður gegn hörku hversdagsins: „Upp með höfuðið og niður með fæturna.“

Þá eru lýsingarnar á hinum samhliða heimum manns og minks svo listilegar að á endanum er lesandinn ekki viss um hvor er húsbóndinn í því samhengi og hvor í fjötrum. Kápumyndin af minkum klæddum í föt undirstrikar grunnstef skáldsögunnar á grípandi og ögrandi hátt.