Katarina Frostenson: Sånger och formler

Katarina Frostenson
Photographer
Mats Bäcker
Ljóðabók, Wahlström & Widstrand, 2015.

Katarina Frostenson er fædd árið 1953 og búsett í Stokkhólmi. Hún er ljóðskáld, rithöfundur, leikskáld og þýðandi og hefur átt sæti nr. 18 í Sænsku akademíunni síðan 1992.

Katarina Frostenson kvaddi sér fyrst hljóðs árið 1987 með ljóðabókinni I mellan. Hún hefur gefið út fjölda ljóðabóka, prósaverka, þýðinga og esseyja. Höfundarverk hennar er fjölbreytt en hefur jafnframt ríka samfellu. Um langa hríð, jafnvel allt frá upphafi ferils síns, hefur hún verið meðal helstu samtímaljóðskálda Svía.

Katarina Frostenson er djörf í tilraunum sínum með formið. Í verkum sínum rýnir hún í tilveru nútímafólks og einnig viðhorf sín til goðsagna og ævintýra. Oft er kvenlegt sjónarhorn í textum hennar, iðulega gegnum sáran og ofsafenginn reynsluheim þar sem goðsöguleg stef falla inn í samtímann og lesandinn kynnist andlegum, menningarlegum og heimspekilegum tengslum fólks í tíma og rúmi. Líkja má lestri á bókum Katarinu Frostenson við dvöl í markalausu rými. Hin ýmsu stef textans; tími, munúð, vitsmunir, goðsögn, reiði, reynsluheimur kvenna, augnaráð barns, minningabrot, hlutir og margt fleira, raðast saman í einstaka heild: að ljóðum Frostensons liggja margar leiðir og þau tala til lesandans frá mörgum mismunandi lögum og stigum.

Sånger och formler (Wahlström & Widstrand 2015) er nýjasta ljóðabók Katarinu Frostenson. Tungumálið tekur á sig mynd og form þegar hún mundar orðin og snýr þeim á alla kanta, leitar merkingar og blæbrigða líkt og orðin og tvíræð tilvera þeirra rúmi alla leyndardóma veraldar og mannlegrar tilveru. Fyrr en varir er lesandinn niðursokkinn í frásögn af líkamlegustu og andlegustu opinberunum tilverunnar, um yfirþyrmandi ferð með matarleifar og bein um skolpræsi, syngjandi fagran óð til borgarinnar Minsk og hvítrússneskrar tungu, hlý og ástrík ljóð til Marínu Tsvetajevu, myndir frá úthverfum og miðborg Stokkhólms og goðsagnapersónuna Marsýas, fleginn lifandi og ofurseldan tónlist og þjáningu. Ljóð Katarinu Frostenson kunna að virðast hörð og ströng en í þeim eiga stöðugar breytingar sér stað; að lesa þau er að sjá umhverfið og forsendur tilverunnar gegnum glerstrending, og slíkar umbreytingar eru kjarni þessarar bókar og þessara ljóða; í þeim kristallast undur lífsins.