Kerstin Ekman

Kerstin Ekman, nominee Nordic Council Literature Prize 2022

Kerstin Ekman

Photographer
Thron Ullberg
Kerstin Ekman: Löpa varg. Skáldsaga. Albert Bonniers Förlag, 2021. Tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2022.

Dag nokkurn sér aldraður veiðimaður slóð eftir stóran úlf úti í skógi og upplifir sterkan andlegan skyldleika með dýrinu. Koma úlfsins í byggðina sameinar og sundrar veiðihópnum sem maðurinnn hefur veitt forystu árum saman og fær hann til að líta yfir farinn veg, yfir langa ævi í skóginum og í samlífi við hann, þar sem fastir punktar hafa verið byssan hans, veiðihundarnir og seinna meir eiginkonan. Líkt og gamall úlfur sem hefur sjálfkrafa verið forystukarldýr í sínum hópi eru dagar hans í því hlutverki brátt taldir, og við lestur á gömlu veiðidagbókunum sínum endurmetur hann þær ákvarðanir sem hann hefur tekið í lífinu.

Með Löpa varg sýnir Kerstin Ekman að hún hefur fullkomin tök á verkfæri sínu. Hver einasta setning vitnar um það vald sem höfundurinn hefur á tungumálinu. Með knöppum en hárnákvæmum stíl lýsir Ekman manni sem öðlast með fálmandi hætti sýn á sig sjálfan, þann sem hann hefur orðið og þann sem hann hefði ef til vill getað orðið – um leið og lýsing hennar á örlögum einnar manneskju opnar á marglaga túlkanir með almennari skírskotun. Bara með titlinum, Löpa varg, sem merkir það að maður og dýr verði eitt; að taka á sig mynd úlfs, vekur hún lesandann til umhugsunar um hin tilviljunarkenndu og fljótandi mörk á milli manneskju og dýrs.

Síðan Kerstin Ekman (f. 1933) gaf út sína fyrstu bók árið 1959 hefur hún byggt upp mikið og víðfeðmt höfundarverk og hlotið fjölda virtra verðlauna fyrir. Meðal annars fékk hún Augustverðlaunin sænsku og bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 1994 fyrir skáldsöguna Händelser vid vatten (Atburðir við vatn, Íslenski kiljuklúbburinn 1995). Í Löpa varg sjáum við nokkur mikilvægustu þemu höfundarverks hennar samankomin. Bókin fjallar um stöðu og ábyrgð manneskjunnar í heimi þar sem maðurinn er ekki lengur álitinn miðpunktur tilverunnar, um sambandið milli manneskju, dýrs og byggðar og um samskipti fólks í litlu samfélagi. Um leið rúmar skáldsagan aðra og hjartnæmari frásögn af gömlu hjónabandi og ævi sem brátt er á enda runnin.