Kjell Westö

Kjell Westö
Photographer
Cata Portin
Kjell Westö: Hägring 38. Skáldsaga. Schildts & Söderströms 2013

Í skáldsögu Kjell Westös, Hägring 38, er lesandanum kastað út í sögulegar aðstæður milli tveggja tímaskeiða, við upphaf síðari heimsstyrjaldar. Sögupersónur hans halda að þær séu búnar að gleyma borgarastyrjöldinni í Finnlandi 1918, þrátt fyrir að langir skuggar hennar teygi sig alla leið til þeirra. Þeir vilja lifa í núinu sem er fjórði áratugur 20. aldar og býður upp á hvers kyns skemmtanir í kvikmyndahúsum, dansstöðum og stórverslunum höfuðborgarinnar. Þeir sjá framtíðina í björtu ljósi og vilja ekki vita af þeim ógnum sem glittir í við sjóndeildarhringinn.

Táknsagan sem er undirliggjandi í skáldsögu Westös er fyrirhafnarlaus. Hann galdrar fram tíðaranda sem er fullur örvæntingar, geigvænlega líkt samtíma okkar. Myndin af ógnandi óvini breiðist út, minnihlutahópar verða sífellt aðþrengdari, lögfræðingi sem hefur skrifað í frjálslynt dagblað er misþyrmt úti á götu.

Í skáldsögunni segir frá því þegar Claes Thune, nýskilinn lögfræðingur, ræður til sín skrifstofustúlku að nafni Matilda Wiik. Hún er 36 ára gömul og mjög hæf. Hún fær starfið þrátt fyrir að hann hafi látið sig dreyma um að ráða yngri og fallegri konu. Sú mynd sem atvinnuviðtalið gefur af Matilda Wiik er að hún sé vel gefin en jafnframt leyndardómsfull. Hún hefur tvö andlit: Annars vegar andlit undirokaðrar verkakonu, hins vegar andlit manneskju sem fylgir eðlisávísun sinni, með innri rödd sem er villt og erfitt að átta sig á. Westö hefur hér skapað sterka og djúpa kvenpersónu.

Thune umgengst oft og með ánægju meðlimi Miðvikudagsklúbbsins: Gamlir vinir hittast á skrifstofu Thunes og sitja við drykkju og samræður um grundvallarspurningar lífsins. Hið pólitíska andrúmsloft verður sífellt spennuþrungnara og félagarnir velja ólíka leiðir í stjórnmálunum. Geðlæknirinn Arelius, sem hrífst af kraftinum, og Grönroos, kaupsýslumaðurinn tækifærissinnaði, snúast til fylgis við öfgaöflin til hægri. Sálfræðingurinn Robi Lindemark, sem nú er kærasti fyrrverandi eiginkonu Claes Thunes, er þrátt fyrir kaldhæðið yfirborðið annar tveggja í hópnum sem teljast til frjálslyndra.

Dag einn hittir Matilda Wiik gestina í Miðvikudagsklúbbnum og kannast við einn þeirra. Hann veit aftur á móti ekki hver hún er. Nú eru þau í siðmenntuðu umhverfi, ekki í fangabúðunum eftir borgarastyrjöldina þar sem maðurinn sem þekktur var undir nafninu „Kafteinninn“ vann Matildu Wiik mein. Loftið verður lævi blandið í skáldsögunni og dulúðin eykst.

Fimmti meðlimur Miðvikudagsklúbbsins, taugaveiklaða ljóðskáldið Joachim Jary, upplifir togstreitu samtímans mestan part sem sjúklingur á heilsuhæli. Hann kemur þó með þeim á Ólympíuleikvanginn, sem þá er nýbúið að taka í notkun, til að fylgjast með hlaupakeppni þar sem frændi hans, Salomon Jary, kemur í mark sem öruggur sigurvegari. Á áhorfendapöllunum sitja alþjóðlegir heiðursgestir frá Þýskalandi Hitlers og öllum að óvörum er úrskurðað að Salomon Jary hafi lent í fjórða sæti.

Frásögn Kjell Westö af þessum sögulega atburði er svo lifandi að hún kallaði fram sterk viðbrögð í Finnlandi. Finnska íþróttasambandið sá sig knúið til þess að lýsa því yfir, 75 árum eftir að keppnin fór fram, að hlauparinn Abraham Tokazier hafi verið réttmætur sigurvegari hlaupakeppninnar árið 1938 þar sem hann var sagður hafa lent í fjórða sæti. Westö flettir ofan af ósjálfráðu gyðingahatri og hugsunarlausri tækifærismennsku ráðandi afla á þessum tíma en jafnframt sýnir hann hversu auðveldlega slík afbökun sögunnar gleymist í tímans straumi.

Westö lætur sér ekki nægja að segja frá sögulegum atburðum, hann tekur líka heimildir sínar föstum tökum og fer með þær að vild. Hann blandar staðreyndum og skáldskap á gáskafullan hátt og grefur undan viðteknum gildum um sögulegar skáldsögur. Jafnframt dregur hann upp mynd af hverflyndi tilfinningalífsins og tilviljunarkennd sagnaritunar.

Kjell Westö er rithöfundur sem bæði gagnrýnendur og lesendur kunna að meta. Bækur hans eru gefnar út á báðum opinberum tungumálum Finnlands. Í Svíþjóð eru þær gefnar út í upprunalegri útgáfu og víða um lönd eru þær gefnar út í þýðingum. Hann hefur hlotið fjölmörg verðlaun, meðal annars virtustu bókmenntaverðlaun Finna, Finlandia-verðlaunin. Hägring 38 hefur jafnframt verið tilnefnd til sænsku August-verðlaunanna.

Jyrki Kiiskinen