Kristine Næss: Bare et menneske

Kristine Næss
Photographer
Finn Ståle Felberg
Skáldsaga, Oktober, 2014

Kristine Næss kvaddi sér fyrst hljóðs með ljóðabókinni Obladi árið 1996. Síðan hafa komið út önnur ljóðabók, fjórar skáldsögur, smásögusafn og bók um eðli skáldskaparins.

Í nýju skáldsögunni, Bare et menneske, mætir glæpasaga úr hversdagslífinu frumlegum svipmyndum af þremur kynslóðum kvenna. Umgjörðin er kunnugleg: ungrar stúlku í vesturhluta Óslóar er saknað og fjölmennir leitarflokkar fara á stúfana. Bea Britt, rithöfundur á sextugsaldri, er vön að vera út af fyrir sig í húsinu sem formæður hennar bjuggu í á undan henni, en nú kveður umheimurinn dyra. Lesandinn fylgist með hástemmdri umfjöllun fjölmiðla um hvarf stúlkunnar, en einnig þeirri ringulreið sem tekur völdin þegar grunur tekur að beinast að Beu Britt.

Bare et menneske fjallar þó ekki um glæpinn nema að litlu leyti. Frumleiki sögunnar liggur fremur í myndinni sem dregin er upp af þeim persónum sem eftir lifa; því hvernig lífið gengur sinn vanagang þrátt fyrir dramatíska atburði. Hún fjallar um það hvernig lífshlaup hinna látnu bergmála í afkomendum þeirra, hvernig afdrifaríkar ákvarðanir, sem að einhverju leyti draga dám af samfélagslegum takmörkunum, velta einnig á hugrekki hvers og eins.

Bea Britt er nefnilega ekki eina aðalpersóna bókarinnar. Þegar líður á frásögnina kynnumst við rödd frá liðinni tíð, sem talar um að fara til læknisins að ræða „taugarnar“. Við erum enn í sama húsinu í vesturhluta Óslóar, en nú á fimmta áratug 20. aldar þegar Cessi, amma Beu, reynir að finna lífsfyllingu í hlutverki sínu sem heimavinnandi húsmóðir. Fyrirlitning hennar á eiginmanninum Hartvig kallast á við annað sögusvið í norskum bókmenntum; brúðuheimili sem setur húsmóðurinni þröngar skorður, og þaulhugsuð smáatriði sem staðsetja söguna í tíma leiða hugann að sögulegum skáldsögum. Lýsingar á sálarlífi persónanna eru ekki síður grípandi og hylja þær og afhjúpa í senn.

Til mótvægis við þetta er frásögn Beate, dóttur vinkonu Beu, sem er táningur í Ósló samtímans. Næss ferst það vel úr hendi að ljá konunum þremur auðþekkjanlegar raddir; hver og ein hefur sinn frásagnarstíl með einkennum mismunandi tíðaranda. Konurnar þrjár eiga allar í ástarsamböndum og stunda kynlíf, án þess þó að nálgunin verði fyrirsjáanleg með tilliti til ríkjandi tíðaranda og kynslóðabils.

Setningin „bare et menneske“, eða bara manneskja, sem bókin dregur nafn sitt af, kemur ítrekað fyrir í textanum. Cessi grípur til hennar í vörn yfir því að geta ekki verið syni sínum, sem hún sendir að heiman, betri móðir. Í fálmandi játningu, blandinni einbeittu innsæi, staðhæfir hún – sjálfri sér lík – að hún sé „of veiklynd til að valda eigin styrk“. Söguhöfundur dregur í efa réttlætingar okkar, hvatir og ástæður, einnig þær sem við deilum ekki með öðrum: Jafngildir það að vita að maður sé „bara manneskja“ því að átta sig á takmörkunum þeirrar vitneskju og hverfulleika tilverunnar? Eða getur þetta yfirlýsta varnarleysi þvert á móti verið fyrirsláttur; vörn gegn því að grípa til aðgerða og horfast í augu við aðstæður?

Einangrun er áberandi stef í bókinni, þótt engin einföld svör séu gefin: byggir einangrunin upp eða rífur hún niður, veljum við hana sjálf eða er hún valin fyrir okkur? Konurnar þrjár birtast sem sjálfstæðir einstaklingar og sú braut sem þær hafa valið í lífinu virðist hvorki fyrirfram gefin né endanleg, auk þess sem þær eru greinilega börn sinna tíma. En það er fyrst og fremst hin óvænta nálgun, bjagaður upptaktur að hversdagslegri reynslu, sem einkennir bókina og reyndar höfundarverk Næss yfirhöfuð. Þetta sést meðal annars í eftirfarandi dæmi úr IKEA-ferð Beu Britt:

„Við leituðum að hlutum en fundum þá ekki, áttum að velja en gátum það ekki, samt urðum við, urðum að taka eitthvað með okkur heim. Þegar við vorum nærri hnigin niður fórum við í kaffiteríuna og þá gat það gerst, meðan við sátum hvort á móti öðru og fullnægðum helstu grunnþörfum fyrir mat, drykk og hvíld. Að við fundum fyrir einhverju. Að tilfinningarnar streymdu fram, og að það, í sjálfu sér, fékk okkur til að tárast, það kom til af þessum innri þrýstingi, að við gátum loks tjáð okkur, allt í einu birtumst við hvort öðru, næstum fullgerð, að minnsta kosti furðanlega margvíð.“  

Bare et menneske er náið samspil þriggja frásagna, sem þó eru afar persónulegar hver um sig. Saman veita þær furðanlega margvíða sýn á líf okkar sjálfra og það hvernig við birtumst hvert öðru sem manneskjur.