Linda Vilhjálmsdóttir

Linda Vilhjálmsdóttir
Ljósmyndari
Forlagið
Frelsi. Ljóðabók, Mál og menning, 2015.

Linda Vilhjálmsdóttir fæddist í Reykjavík 1. júní 1958 og hefur skipað sér sess meðal fremstu skálda Íslendinga allt frá því að fyrsta ljóðabók hennar (Bláþráður) kom út árið 1990, en fyrstu ljóð hennar tóku að birtast í tímaritum og á ýmsum vettvangi 1982. Síðan þá hefur hún sent frá sér fimm aðrar ljóðabækur, leikrit og ljóðverk, fjölmörg ljóð og greinar í tímaritum og einnig skáldsögu sem kom út 2003 og er að nokkru byggð á persónulegri reynslu. Ljóð eftir Lindu hafa verið birt í safnritum og tímaritum á ensku og þýsku og hún hefur komið fram á ljóðahátíðum, bæði innanlands og erlendis.

Níu ár liðu á milli ljóðabóka, frá fimmtu ljóðabókinni (Frostfiðrildi) árið 2006 þangað til Frelsi kom út árið 2015. Linda hefur áður hlotið viðurkenningar og verðlaun fyrir ljóð sín, síðast Menningarverðlaun DV fyrir Frelsi, en þetta er í fyrsta sinn sem hún er tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.

Frelsi er óvenju áleitin og áhrifamikil ljóðabók, með nafnlausu inngangsljóði og þremur tölusettum ljóðabálkum sem allir snúast um leiðarminnið frelsi, afbökun okkar á hugtakinu og upplifun okkar af því. Hárbeitt kaldhæðni svífur yfir vötnum í meitluðum texta þar sem sérhvert orð er vandlega valið og þrungið merkingu. Ljóðin renna saman í vitund lesanda og mynda sterka heild en þó hafa allir kaflarnir sitt sérstaka innra minni og sjónarhorn lesenda hnikast til eftir því hvar þeir eru staddir. Þegar lestri er lokið hefst hringrásin aftur og við stöndum á upphafspunkti.

Nafnlausa ljóðið leiðir okkur inn í bókina: Við höfum margfaldað allt milli himins og jarðar nema gæskuna og frelsið sem við teljum okkur hafa öðlast er í rauninni frelsi til ánauðar, frelsi til að grafa okkur lifandi í túninu heima, sneydd samkennd og raunverulegri reynslu af heiminum.

Næsta ljóð eða ljóðabálkur, tölusett I, tekur áreynslulaust við af inngangsljóðinu: ferðin heldur óslitin áfram og „okkar forhertu bein [...] meyrna í garðinum innan við skjólvegginn“. Minnið í þessum hluta bókarinnar er tilvísun í fleyg orð sem féllu fyrir Hrun, um að fólk vilji græða á daginn og grilla á kvöldin. Ljóðmælandi dregur þá sem trúa að frelsið sé til þess eins að græða sem mest og lífsstíl þeirra sundur og saman í háði og afhjúpar eftirminnilega grunnhyggnina og skeytingarleysið um það sem af henni leiðir:

skilaboð okkar

til umheimsins eru skýr

 

þó að lóðin sé skráð á krakkana

er okkur eftir sem áður

frjálst að framselja moldina

Í ljóði II erum við komin til Betlehem, til lands mannsins sem boðaði að sannleikurinn myndi gera okkur frjáls, en frelsið býr ekki hér heldur þrengsli í afmörkuðum rýmum. Hér má ekki ganga um að vild heldur þarf leyfi til að stikla á milli kortlagðra krossstoppistöðva í fylgd leiðsögumanns, rétt eins og frjálshyggjufrelsið í ljóðinu á undan setur okkur fastar skorður á lífsleiðinni. Hér eru þrjár afmarkaðar tegundir manna, gyðingar bakvið skothelt gler, arabar í þröngri stíu á berangri og pílagrímar sem eru látnir bíða við aðskilnaðarmúrinn þangað til þeir fá „að feta í þau fótspor frelsarans sem lentu réttumegin við múrinn“. Óþægileg innilokunarkennd og óhugur lesandans ágerist þegar fyrirframmótaðar hugmyndir og trúarleg minni rekast á við napra mynd af veruleika: jata jesúbarnsins andspænis fimm stjörnu interkontínental hóteli og flóttamannabúðum, vopnaðir hermenn á via dolorosa, kirkjurnar víggirtar og undirskipaðar konur „mega náðarsamlegast gráta og biðja í sínu afmarkaða kerlingahorni“ en sitja á endanum uppi „með ávöxtinn og ríflega ábót á kaleikinn“.

Í lokaljóðinu, III, halda trúarleg minni áfram, en hér eru þau sett í samhengi við kunnuglega umræðu í heimahögum. Hér er hagvöxturinn guð og trúarhátíðirnar landsleikir og útihátíðir. Við erum frjáls til að kjósa áframhaldandi stríð gegn náttúrunni, til að loka augunum fyrir veruleikanum og skeyta ekki um framtíðina, frjáls til að vera alltaf í stuði í „okkar upphöfnu hollustuparadís“. Heiminum okkar er skipt í hólf og skipað á bása eins og mannfólkinu í landinu helga, við teljum tilgang lífsins enn felast í frelsinu til að græða á daginn:

og líðum aðgerðalaus

um útfjólubláan veraldarvefinn

í síðupplýstu veldi feðranna

 

meðan mannsbörnin aðlagast

stingandi kulda brennandi hita

og stækkandi skömmtum

af loftleysi

Frelsi Lindu Vilhjálmsdóttur er vissulega pólitísk og feminísk bók, eins og hún lýsti henni sjálf í viðtali, en hún er fyrst og fremst þörf könnun á frelsishugtakinu og úttekt á sinnulausri siglingu okkar um úthaf orðavaðals og afmyndaðra hugtaka. Orðavaðall á þó sannarlega ekki við um verk Lindu, því hvert orð er valið af fágætri natni og allt er þarna til fyrirmyndar, jafnt form og uppsetning sem kristaltær texti og hárbeittur boðskapur. Frelsi er einstök ljóðabók í öllu tilliti og á eflaust eftir að vekja marga lesendur til vitundar um samtíma sinn og framtíðina sem bíður ef ekkert er að gert.