Magnus Larsen

Magnus Larsen
Magnus Larsen: Illinersiorluni ingerlavik inussiviuvoq. Sjálfsævisaga, Maanuup atuakkiorfia, 2017

Í sjálfsævisögunni Illinersiorluni ingerlavik inussiviuvoq (á íslensku „Á sleðaferðum hef ég hitt margan manninn um ævina“) fer Magnus Larsen aftur til áranna 1963 til 1975. Bókin er annað bindið endurminninga hans en fyrra bindið, Illinersiorluni ingerlavik, hefst á árinu 1931 (fæðingarári höfundar) og lýkur 1963.

Magnus Larsen var vígður til prests 1963 og sinnti síðan prestaköllunum í Qaqortoq, Upernavik, Qaanaaq, Sisimiut, Narsaq og Aasiaat. Eins og menn vita liggja grænlenskir bæir meðfram langri strandlengjunni einangraðir hver frá öðrum. Á sumrin var sjóleiðin fær á milli þeirra en á veturna gerði íbúunum fært að fara á hundasleðum. Á þessum árum voru það hlutskipti presta að vera sendir út á land til fárra ára í senn eða þar til prófastsembættið í Godthåb (Nuuk) ákvað að senda þá annað.

Magnus Larsen segir frá prestaköllunum og íbúum þeirra. Hann er efins um ágæti þess að senda menn til starfa og búsetu á ókunnum stað í eitt eða tvö ár og rífa þá upp með rótum þegar þeir eru farnir að kynnast sóknarbörnunum. Tengslin við söfnuðinn og bæjarlífið, sú þekking og reynsla sem menn öðlast fer í súginn þegar menn eru sendir aftur á byrjunarreit. Hirðingjalífið sem mönnum var boðið upp á hafði sínar afleiðingar, ekki aðeins fyrir prestinn heldur alla fjölskyldu hans. Bitnaði það ekki síst á börnunum á skólaskyldualdri, tungumáli þeirra, sjálfsmynd og menningu. Þannig voru hlutskipti margra Grænlendinga, oft að þeim forspurðum.

En bókin fjallar ekki eingöngu um það sem miður fer í nútímanum. Þar er einnig sagt frá góðu og hlýju samstarfsfólki. Sagt er frá lífsháttum fólk í bæjum og þorpum sem höfundur átti leið um á sleðaferðum sínum í starfi sínu sem sálusorgari.

Í bókinni er brugðið upp athyglisverðri mynd úr menningarsögunni. Það var þegar barist var fyrir því að „heiðnu“ nöfnin, það er grænlensk nöfn frá því fyrir kristnitöku, yrðu viðurkennd og innleidd í hina viðteknu kristnu nafnaskrá sem ættarnöfn. Í þeirri baráttu kynntu menn sér grænlensk og kanadísk inúíta-nöfn, siði og hefðir.

Bókin er því ekki aðeins sjálfsævisaga heldur veitur hún einnig innsýn í grænlenska samtímasögu, þar á meðal framkomu yfirvalda gagnvart íbúum nyrstu svæðanna í kjölfar þess að bandarísk B52-flugvél með kjarnorkuvopn innanborðs hrapaði á ísbreiðuna við bandarísku herstöðina í Thule árið 1968.