Malin Kivelä, Martin Glaz Serup og Linda Bondestam:

Malin Kivelä, Martin Glaz Serup, Linda Bondestam
Photographer
Niklas Sanström (Linda Bondestam & Malin Kivelä), Mathias Olander (Martin Glaz Serup)
Malin Kivelä, Martin Glaz Serup og Linda Bondestam (myndskr.): Om du möter en björn. Myndabók. Förlaget M, 2021. Tilnefnd til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2022.

Rökstuðningur

Manneskja með bakpoka, tjald og sveppakörfu býr sig í skógarferð til að njóta þess að upplifa náttúruna. Hún hyggur meðal annars á berjatínslu og dýfu í ísköldum læk, en hvað ef það kemur nú björn! Hvað gerist þá?

 

Þessari spurningu beina Kivelä, Glaz Serup og Bondestam til lesenda sinna í myndabókinni Om du möter en björn („Ef þú mætir birni“, hefur ekki komið út á íslensku). Spurningin er raunsæ. Í skóginum leynast villidýr sem gestkomandi borgarbúi þarf að taka afstöðu til. Bókin sækir innblástur í fræðslubækling um raunverulega fundi mannfólks og bjarna og hefst á alvöruþrungnum og gagnlegum ráðleggingum, svo sem „ekki hlaupa, því að björninn hleypur hraðar en þú“. Fljótlega snýst frásögnin þó upp í að sögumaður lætur gamminn geisa um það sem manneskjan getur gert betur en björninn, eða hvers vegna það getur komið sér vel að hafa spjaldtölvu meðferðis.

 

Om du möter en björn er glæsileg, heilsteypt afurð samnorræns myndabókasamstarfs þar sem smæstu blæbrigði textans eru nýtt til hins ýtrasta og ólíkir þættir tengdir saman í eina heild með fjölbreyttri myndafrásögn. Höfundar bókarinnar leika sér ærslafengið að væntingum lesenda og bjóða þeim í uggvænlegt ævintýri þar sem björninn fær að skína í aðalhlutverkinu. Og hann getur leikið ýmis hlutverk; er ýmist meinleysislegur, loðinn og vinalegur bangsi, hamslaust skrímsli sem fyllir heila opnu eða einfaldlega dýr sem hefur engan sérstakan áhuga á okkur mannfólkinu.

 

Þessi hressandi ósvífna myndabók eftir Kivelä, Glaz Serup og Bondestam er fyrir alla aldurshópa – hrollvekjandi og fyndin skopstæling á fræðslutexta, með skarpri sýn á samtímann. Í norrænu löndunum er líf í nánum tengslum við náttúruna mikils metið. En hversu villt má náttúran raunverulega verða fyrir okkur þægindavönu borgarbúana? Höfundar bókarinnar gera sömuleiðis að engu þá lífseigu mýtu að barnabókmenntir eigi ávallt að kenna lesendunum eitthvað. Er ekki nóg að hafa húmor og spennu?

 

Malin Kivelä (f. 1977) er finnlandssænskur verðlaunahöfundur, leikskáld og blaðamaður sem skrifar fyrir bæði börn og fullorðna. Á meðal fyrri samstarfsverkefna hennar og Lindu Bondestam má nefna myndabókina Bröderna Pixon och TV:ns hemtrevliga sken (2013), sem hefur einnig verið aðlöguð að leiksviði.

 

Martin Glaz Serup (f. 1978) er danskt verðlaunaskáld og barnabókahöfundur, ritstjóri og gagnrýnandi. Hann hefur meðal annars sent frá sér myndabækurnar Huset på havets bund (2018) í samstarfi við Lars Vegas Nielsen og Historien om Daniil Kharms (2017) ásamt Mette Marcussen.

 

Linda Bondestam (f. 1977) er verðlaunaður finnlandssænskur myndskreytir og höfundur myndabóka með um 40 verk á ferilskránni. Árið 2017 hlaut bókin  Djur som ingen sett utom vi  (2016) eftir Ulf Stark og Lindu Bondestam barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs.