Mona Høvring

Mona Høvring
Ljósmyndari
Finn Ståle Felberg
Mona Høvring: Camillas lange netter. Skáldsaga, Oktober forlag, 2013.

Mona Høvring er fædd 1962 og hefur áður gefið út fimm ljóðasöfn og tvær skáldsögur. Að þessu sinni hefur hún gefið út skáldsögu sem samanstendur af stuttum ljóðrænum textum í óbundnu máli. Høvring hefur áður sent frá sér bæði verk í óbundnu máli og ljóð. Í Camillas lange netter má finna hvort tveggja.

Camillas lange netter byggir á skáldævisögu Camillu Collett (1813-1895) frá 1862, I de lange nætter. Þrátt fyrir að Camilla Collett sé enn þekkt í norskum bókmenntaheimi og lesendur samtímans kannist við hana hefur sjálfsævisaga hennar lítið verið lesin. Bók Høvrings er samþjöppuð umritun sjálfsævisögunnar. „Ég hef verið trú skáldsögunni en jafnframt hörð,“ hefur Mona látið hafa eftir sér í viðtali. Camillas lange netter býður upp á svipmyndir úr barnæsku Camillu Collet og úr lífi hennar sem fullorðinnar konu. Hún segir frá foreldrunum, náinni vinkonu sem deyr, skólanum og náttúrunni. Frá því að verða ástfangin af Johan Sebastian Welhaven, frá eiginmanninum Peter Jonas Collett og kærleikanum til og aðdáuninni á bróðurnum, Henrik Wergeland. Camillas lange netter felur í sér beina hvatningu til að lesa sjálfsævisögu Colletts en um leið stendur bók Høvrings klárlega á eigin fótum.

Skáldsaga Høvrings breikkar skáldsöguhugtakið og veltir upp spurningum um það hvernig hægt sé að segja frá fortíðinni. Camilla lange netter er texti sem fjallar hið liðna á marga vegu og á mörgum stigum. Atburðirnir sem lýst er áttu sér stað á nítjándu öld. Í upprunalegum texta Colletts er sagt frá þeim í formi endurminninga. Það er því fortíð fortíðarinnar sem er til umfjöllunar. Þar að auki tekur Camilllas lange netter á fortíð tungumálsins á mörkum dönsku þess tíma og norsku samtímans. Sú ákvörðun Høvrings að skrifa á róttæku bókmáli gefur textanum sérkenni og styrk (bls. 52):

„Eftir því sem ég hef séð meira af lífinu hefur skilgreining mín á guði orðið æ víðari. Almættið er ekki bara að hræða okkur með ströngum predikunum, það talar líka til okkar með undursamlegum atburðum. Almættið skiptir ekki heiminum upp eins og við og gerir ekki fyrirvara á sama hátt. Almættið er til í hinu smæsta og hinu stærsta. Í öllu sem hrærist er votttur af stórfengleika almættisins. En nú á tímum er okkur kennt annað. Mótast hefur ísköld hugtakanotkun tengd almættinu. Allt sem hefur bragð af lífi og hlýju er horfið. Og hvað eigum við að gera í þessari fjarlægð, í þessu órjúfanlega skýi kaldrar óhlutbundinnar hugsunar?“

Málfarið í Camillas netter er breitt, alþýðlegt og fullt sjálfstrausts og myndar virkt og óvænt mótvægi við 18. aldar dönsku Colletts hvað varðar formgerð, málskipan og orðaval. Efnið er hins vegar það sama og í upprunalegu verki Colletts en í mjög samþjöppuðu formi. Høvring heldur sig fast við upprunalega textann, bætir ekki við, styttir bara og umskrifar þannig að textinn ber með sér rödd Colletts. Um leið hefur Høvring skapað eigið verk án þess að gefa nokkuð eftir.

Helene Uri