Nils Henrik Asheim

Nils Henrik Asheim
Photographer
Nils Henrik Asheim
Tilnefndur fyrir verkið „Muohta“

Muohta fyrir kór og strengjasveit er samið sem svar við Árstíðunum eftir Joseph Haydn frá árinu 1801. Verkið var frumflutt haustið 2017 í beinu framhaldi af Sumrinu úr fyrrnefndu verki. Undirtónar verksins eru óþægilega óljósir: Vísindamenn nútímans eru uggandi yfir breytingum árstíðanna en á tímum Haydn ríkti mikil bjartsýni innan vísindanna. Í tónlist Nils Henriks Asheims endurspeglast vitund um sögulegar hefðir og samhengi og þar má skynja fortíðina í nútímalegum hljóðheimum.

Muohta ljáir upprunalegu fólki rödd: Nafn verksins er sótt í samísku og þýðir snjór en textinn samanstendur af átján orðum til viðbótar úr samísku sem ná yfir snjó. Langir kaflar í verkinu eru mildir rétt eins og þeir lýsi frosnu landslagi. En undir yfirborðinu lifir landslagið og gerir vart við sig í hægum vart merkjanlegum breytingum og óvæntum snúningum og andstæðum eins og þegar kórinn syngur um gífurlega hita í lokaþætti verksins. Greina má næmni tónskáldsins fyrir gagnkvæmri hlustun og nýstárlegum tengingum milli hljóðfæra og radda, hljóða, orða og hljómhrifa.

Nils Henrik Asheim (f. 1960) hefur á ferli sínum unnið ýmist sem tónskáld, organisti, útsetjari eða sýningarstjóri. Hann hefur alltaf verið einkar laginn við að hleypa öðrum tónlistargreinum inn fyrir hlið listrænnar tónlistar og gera hana aðgengilega fyrir nýja áheyrendur. Sem tónskáld og tónlistarflytjandi fæst hann við raddsetningar, alþýðutónlist og frjálsan spuna svo eitthvað sé nefnt í samstarfi við tónlistarfólk á sviðum klassískrar tónlistar, popp / djass og raftónlistar.

Frumflutt af Det Norske Solistkor og Ensemble Allegria undir stjórn Grete Pedersen í Universitetets aula í Ósló þann 28. október 2017.