Peter Uhrbrand

Peter Uhrbrand
Photographer
Thisted Dagblad
Peter Uhrbrand er á meðal hinna 13 sem tilnefndir eru til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2023.

Rökstuðningur:

Fiðluleikarinn Peter Uhrbrand hefur fest sig í sessi á meðal helstu fánabera norrænnar tónlistarhefðar með djúpri og alvörugefinni nálgun sinni á hefðina, hreinskiptni , auðmýkt, forvitni, óþreytandi fjöri og ómetanlegu sögulegu innsæi. Allt frá áttunda áratug síðustu aldar hefur hann haldið á lofti einni öflugustu og líflegustu tónlistarhefð Norðurlanda: Þeirri einstöku hefð tónlistariðkunar sem þróast hefur óslitið öldum saman í Sønderho á Fanø í Danmörku. Af þekkingu á fortíðinni og virðingu fyrir henni færir Uhrbrand þessa hefð inn í framtíðina. Meðvitund hans um sögulegar forsendur tónlistarinnar gerir hann að málpípu allra þeirra fyrri kynslóða sem skilið hafa hefðir sínar eftir sig. Líkt og vitni um framþróun menningarinnar túlkar hann þessa arfleifð á persónulegan og óttalausan hátt. Þannig berst tónlistin, hjartaspilið (da. „hjertespil“) eins og gamall lærimeistari Peters kallaði hana, áfram með Peter Uhrbrand sem tryggingu þess að allrar virðingar sé gætt. Sem tónlistarmaður og manneskja hefur hann veitt fjölda kynslóða innblástur og hvatt þær til að halda áfram þróun hinnar norrænu þjóðlagatónlistar í heildstæðum skilningi. Hann hefur einstakt lag á því, með sínu opna og listræna hugarfari, að færa tónlistina frá Fanø langt út yfir mörk þjóðlagatónlistarinnar og láta hana hitta fyrir og auðga aðrar tónlistargreinar, listform og menningarkima án þess að hefðin þurfi nokkru sinni undan að láta.